föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Selveiðum Norðmanna stefnt í uppnám

28. febrúar 2012 kl. 13:03

Selveiðar á norskum selfangara djúpt norðan Íslands.

Selskinnabann Rússa mun afdrifaríkara en bann Evrópusambandsins

Bann Rússa við innflutningi á selskinnum, sem tók gildi um síðustu áramót, stefnir framtíð selveiða Norðmanna í uppnám, að sögn hagsmunaaðila í þessari grein. Um 80% af norskum selskinnum hafa verið seld til Rússlands og Kína og því er rússneska innflutningsbannið miklu áhrifameira en hið umdeilda og margumtalaða bann Evrópusambandsins.

Leiðarahöfundur Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi bendir á að selveiðar snúist ekki bara um verslun með selaafurðir heldur sé nauðsynlegt að veiða sel til þess að viðhalda jafnvægi í lífríkinu. Ef ekki verði spornað við stækkun selastofna muni það koma niður á öðrum nytjastofnum í hafinu.

Vakin er athygli á því að við Grænland séu taldar vera um 17 milljónir sela og grænlenskum fiskimönnum finnist hagsmunum sínum ógnað. Við austurströnd Kanada eru selir taldir vera 8-9 milljónir talsins.

,,Við vitum öll hvað gerðist þegar fæðuskortur var í Barentshafi í lok níunda áratugarins og selur úr Hvítahafi óð inn að norsku ströndinni. Enginn vill að það endurtaki sig,“ segir leiðarahöfundurinn og bætir við að sannarlega sé kominn tími til að Norðmenn geri sig óvinsæla í heiminum og taki þetta mál upp af festu.