miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Senn skýrist hvort loðna verður veidd

Guðsteinn Bjarnason
20. febrúar 2020 kl. 07:00

Börkur NK á loðnuveiðum í mars 2018 – þegar síðast var veidd loðna hér við land. Mynd/Stefán Pétur Hauksson

Sex skip hafa verið í þriðju yfirferð loðnuleitar ársins.

Þriðju yfirferð loðnuleitar er að ljúka en að sögn Birkis Bárðarsonar leiðangursstjóra er of snemmt að segja til um magn.

„Við höfum verið að sjá aðeins loðnu á grunnunum hérna fyrir norðan, við Eyjafjarðarál og Grímseyjarsundið og einnig er eitthvað við Rifsbanka út af Sléttu,“ sagði Birkir í gær.

„Það á eftir að koma í ljós hvað er þarna út af Sléttu, við erum ekki búnir með það svæði. En hérna út af Eyjafirðinum og þar held ég að ég geti sagt að ekkert nýtt hafi verið. Við sáum þá loðnu vera að ganga hérna upp um daginn og við erum væntanlega að sjá hana aftur núna komna grynnra. En það á eftir að taka þetta allt saman og fá magn á þetta.“

Birkir hefur verið um borð í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og var skipið á siglingu í Húnaflóa í gær þegar Fiskifréttir náðu tali af honum. Ásamt Árna taka fimm fiskiskip þátt í þriðju yfirferð loðnuleitar.

„Það er nýjung hjá okkur að vera með þetta mörg skip sem öll eru með mannskap frá okkur um borð, og öll að mæla með kvörðuðum mælum.“

Kvarðaðir mælar hafa verið stilltir þannig að mælingar skipanna verði fullkomlega sambærilegar.

Í þessari þriðju yfirferð eru það, auk Árna, íslensku fiskiskipin Heimaey VE, Hákon EA, Aðalsteinn Jónsson SU og Börkur NK sem taka þátt í leitinni ásamt grænlenska skipinu Polar Amaroq.

Birkir segir það einnig nýtt í þessari leit að Hákon hafi verið sendur vestur að Dornbanka þar sem fregnið höfðu borist af loðnu.

„Þar höfðum við frétt frá togurum sem höfðu verið að veiða þar að loðna hafi sést eitthvað í fiski og trolli,“ sagði Birkir. „Það er loðna víða en annað mál hvort það sé eitthvað magn eða ekki.“

Þröngur veðurgluggi

„Þetta gengur hratt og vel fyrir sig með svona mörgum skipum, en við erum að vinna í mjög þröngum veðurglugga.“

Hann sagði í gær að reynt yrði að ná skipunum saman fyrir nóttina, því þá væri von á brælu. Reynt yrði að klára yfirferðina, en hafi það ekki tekist myndi Árni bíða af sér bræluna og klára yfirferðina nú á föstudag og laugardag líklega. Mögulega yrði eftir eitthvað svæði út af Húnaflóa og jafnvel einnig út af Sléttu.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um frekari leit.

„Það fer alltaf að verða erfiðara og erfiðara eftir því sem á líður að ná utan um hana.“

Í fyrstu yfirferð loðnuleitar mældust 64 þúsund tonn en í annarri yfirferð mældist heildarmagn hrygningarloðnu 250 þúsund tonn.

Hafrannsóknarstofnun sagði niðurstöðu þeirrar mælingar vera „töluvert undir því marki sem gefur Hafrannsóknastofnun tilefni, samkvæmt aflareglu, til að mæla með veiðikvóta. Svo það gerist má gróflega áætla að það þurfi að minnsta kosti 150 þúsund tonn til viðbótar að mælast.“

Samkvæmt aflareglu þarf ráðgjöf ársins að miðast við að ekki minna en 150 þúsund tonn af hrygningarloðnu verði eftir þegar veiðum lýkur.