miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sér vaxtarmöguleika í laxeldinu

Guðsteinn Bjarnason
12. apríl 2020 kl. 09:00

Kristján G. Jóakimsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal. MYND/GB

Heimsfaraldur temprar afköstin. Páll Pálsson ÍS hefur þó staðið undir öllum væntingum en næsta fjárfestingarverkefni er væntanlega nýtt vinnsluhús á Ísafirði.

Hraðfrystihúsið Gunnvör (HG) hefur ekki farið varhluta af ástandinu vegna heimsfaraldurs COVID-19, frekar en aðrir.

„Afköstin hafa farið niður hjá okkur í vinnslunni og þá þurfum við að tempra veiðarnar samkvæmt því,” segir Kristján G. Jóakimsson framkvæmdastjóri vinnslu og sölu.

„Samt er eiginlega ekkert annað í stöðunni en að veiða meðan það er fært og halda áfram vinnslunni. Svo krossum við fingur og reynum að vanda okkur eins og hægt er í smitgátinni.”

Fyrirtækið horfir þó fram á betri tíma þegar ósköpin eru yfirstaðin og er með áform um að reisa nýtt vinnsluhús á Ísafirði. Bolfiskvinnslan yrði þá flutt frá Hnífsdal, þar sem húsakynnin eru komin til ára sinna. Búið er að sækja um og fá lóð og vonir hafa staðið til þess að framkvæmdir gætu hafist á þessu ári.

Þetta verður vonandi næsta fjárfestingarverkefni fyrirtækisins en ár er nú liðið frá því nýja skipið, togarinn Páll Pálsson ÍS, kom til landsins.

„Það hefur reynst okkur vel, er að standast allar væntingar.”

Skipið var smíðað í Kína ásamt tvíburatogaranum Breka VE og eru báðir með stærri skrúfu en áður hefur tíðkast, tvö troll og nýjustu tækni á vinnsludekki.

Klasasamstarf í Klofningi

Kristján segir að undanfarin tuttugu ár hafi HG lagt áherslu á að vera leiðandi í að bæta aflameðferð um borð í fiskiskipum sínum og landvinnslu.

„Þá höfum við einnig lagt mikið upp úr því að nýta aukahráefnið,” en partur af þeirri vinnu er náið samstarf við Kerecis, fyrirtæki sem framleiðir sáragræðandi lækningavörur úr roði. Kerecis hóf feril sinn á Ísafirði en er nú er orðið alþjóðlegt lækningavörufyrirtæki í fremstu röð.

„Við höfum átt ágætis samstarf við þá og erum stolt af að hafa lagst á árarnar með að það komist á laggirnar.”
HG hefur einnig átt í góðu samstarfi með öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum á Vestfjörðum um sjávarútvegsklasa.

„Það er fyrirtæki sem heitir Klofningur og er sérhæft í að taka aukahráefni eins og fiskhryggi eftir flökum, hausa, roð og slóg og annað. Hausaþurrkun fyrir Nígeríumarkað hefur samt verið burðarásinn í þessu en við leggjum okkur fram um að auka verðmætin og erum með fleiri járn í eldinum.”

Klofningur er með höfuðstöðvar á Suðeyri en með starfsstöðvar á Ísafirði, Suðureyri og Tálknafirði. Það er í eigu fyrirtækja í Bolungarvík, Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Patreksfirði.

Varla vöxtur í kvótanum

Kristján segir vaxtarmöguleika fyrirtækisins þó einkum liggja í fiskeldi, og hefur þá helst horft til laxeldis en regnbogasilungs til vara.

„Kvótunum er ekkert hægt að hagga mikið. Þetta er takmörkuð auðlind og kannski lítið hægt að stækka nema með kaupum og/eða sameiningu við einhvern annan. Þannig að við höfum séð einkum séð vaxtarmöguleika fyrir okkar fyrirtæki í gegnum fiskeldi.”

Kristján segir það óneitanlega hafa það valdið töluverðum vonbrigðum hvað Hafrannsóknastofnun og stjórnvöld hafa verið treg til að heimila laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Staðan breyttist þó fyrir fáum vikum þegar Hafrannsóknastofnun birti tillögu að nýju áhættumati sem gerir ráð fyrir 12 þúsund tonna laxeldi í Djúpinu.

„Þetta er samt tillaga Hafró. Ráðherra á eftir að staðfesta það og maður veit ekki hvort það tekur einhverjum breytingum.”

Kristján segir það jákvætt að verið sé að opna á eldi í Djúpinu, en því fylgi þó blendnar tilfinningar því svæðatakmarkanir í nýja áhættumatinu muni valda erfiðleikum við að skipuleggja þessi smitvarnarsvæði.

„Það virðist lítið spáð í hvernig menn voru búnir að stilla þessu upp. Þannig að hættan er sú að ef menn eiga að setja þetta magn inn á lítil svæði þá verður það alltaf erfiðara að fyrirbyggja sjúkdóma og áföll.”

Búa til smitþröskulda

HG er með áform um fiskeldi á þremur stöðum í Djúpinu og hefur „nálgast verkefnið þannig að vera með þrjú aðskilin árgangasvæði. Það er sérstaklega út af umhverfismálum og fyrirbyggjandi aðgerðum gegn sjúkdómum.”

Hann segir þetta í raun vera það sama og verið er að gera núna út af kórónavírusnum.

„Menn eru alls staðar að reyna að búa til smitþröskulda. Milli deilda í fyrirtækjum, milli fyrirtækja og svo Ísland sem land. Það er sama hugsun í raun og við höfum verið að tala fyrir í laxeldinu, að menn skilgreini framleiðslusvæðin með smitþröskuldum. Það er mikilvægt ef eitthvað kemur upp á að geta einangrað svæðið og láta ekkert berast yfir á annað.”

Hann segir að þessa hugsun hafi vantað dálítið í laxeldinu hér á landi.
„Það er búinn að vera dálítill káboj-stíll yfir þessu. Menn hafa verið að helga sér svæði. Við höfum verið svolítið sér á parti með þessa umræðu. Bæði í Noregi og Chile og Færeyjum hafa menn verið að lenda í þessu. Þeir hafa upplifað þetta sjálfir á eigin skinni.“

Alls hefur fyrirtækið verið með rúmlega 200 starfsmenn í 150 heilsársstörfum, en starfsemin er í þremur sveitarfélögum: Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Strandabyggð.

Bolfiskvinnsla og höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hnífsdal, en á Eyrinni á Ísafirði er frysti- og pökkunaraðstaða ásamt frystigeymslu. Í Súðavík er svo niðursuðuverksmiðja og þar er einnig eldismiðstöð fyrirtækisins, sem rekin er undir merkjum dótturfyrirtækisins Háafell. Seiðaeldisstöð Háafells er á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi.