föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sérfræðinganefndin gagnrýnir fiskveiðifrumvarpið harðlega

20. júní 2011 kl. 10:10

Togveiðar

Meðal annars mælt gegn takmörkunum á framsali aflaheimilda og banni við veðsetningu kvóta.

Sérfræðingahópurinn sem Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra skipaði og falið var að  meta með hagrænum hætti frumvarp til breytinga á stjórn fiskveiða skilaði áliti fyrir helgina.

Sérfræðingarnir gagnrýna harðlega marga meginþætti frumvarpsins.

Í fyrsta lagi telur sérfræðihópurinn úthlutunartíma aflaheimilda mjög skamman og að óvissan um framlengingu, bæði eftir 15 ár og 23. ár, brjóti í bága við inntak samningaleiðarinnar.

Í öðru lagi mælir hópurinn eindregið gegn takmörkunum á framsali enda skipti viðskipti með aflaheimildir miklu máli um hagkvæmni í sjávarútvegi.

Í þriðja lagi telur hópurinn bann við veðsetningu aflaheimilda óráðlegt. Bann við veðsetningu geri fjármögnun dýra og erfiða og sé beinlínis fjandsamleg nýliðum.

Í fjórða lagi telur hópurinn að byggðakvóta sé úthlutað of seint og til of skamms tíma. Farsælla og gegnsærra væri að styðja byggðarlög í vanda með fjárframlögum frá ríkinu til langtímauppbyggingar atvinnustarfsemi.

Í fimmta lagi er varað við því að strandveiðar séu í eðli sínu ólympískar veiðar sem leiði til kapphlaups um afla sem hækki sóknarkostnað, lækki verðmæti afla og hvetji til brottkasts meðafla. Ef strandveiðar séu leyfðar sé rétt að þær greiði sama auðlindagjald og aðrir.

Í sjötta lagi telur sérfræðihópurinn að tillögur frumvarpsins um veiðigjald séu innan hóflegra marka einar og sér en í samhengi við aðrar tillögur frumvarpsins geti þessi gjaldtaka hins vegar ekki talist það.

Í samantekt sérfræðingahópsins segir að lokum:

,,Með frumvarpinu er sjávarútvegnum fært það hlutverk að takast á við staðbundin vandamál í byggðaþróun á Íslandi. Á þann hátt er dregið úr rekstrarlegri hagkvæmni greinarinnar og þar með samkeppnishæfni hennar á alþjóðlegum mörkuðum. Það mun veikja stöðu sjávarútvegs sem atvinnugreinar og dregur úr möguleikum hans til að skila arði inn í þjóðarbúið.”

Í sérfræðingahópinn voru skipaðir: Axel Hall hagfræðingur, sem jafnframt er formaður, Daði Már Kristófersson, hagfræðingur, Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur, Sveinn Agnarsson, hagfræðingur og Ögmundur Knútsson, viðskiptafræðingur. Starfsmaður sérfræðihópsins var Stefán B. Gunnlaugsson, sjávarútvegsfræðingur.

Sjá greinargerðina í heild.