miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sérhæfðir í veiðum á grálúðu

Guðjón Guðmundsson
25. nóvember 2021 kl. 14:00

Ný Kristrún við komuna til Reykjavíkur í vikunni. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Fiskkaup í Reykjavík fær nýtt skip

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Fiskkaup á Fiskislóð í Reykjavík tók á móti nýju atvinnutæki í byrjun vikunnar sem er fiskiskipið Argos Foyanes sem leysa mun af hólmi beitningavélaskipið Kristrúnu RE 177 og bera nafn þess. Til stendur að gera eldri Kristrúnu út eitthvað áfram meðan unnið er að breytingum á nýja skipinu.

Nýja Kristrún var í eigu norskra aðila. Það er línuskip smíðað árið 2001, 48,8 metrar á lengd og 11,03 á breidd og var gert út á tannfiskveiðar á línu frá Uruguay í Suður-Ameríku. Í skipinu er búnaður til frystingar og Fiskkaup ætla að gera það út á grálúðuveiðar fyrir norðan land eins og eldri Kristrúnu. Hún er hins vegar til sölu og verður seld þegar hún hefur lokið sínu hlutverki fyrir Fiskkaup berist í hana tilboð.

Ásbjörn Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskkaupa, var um borð í skipinu þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í byrjun vikunnar. Hann sagði að sér litist vel á skipið sem var siglt frá Kanaríeyjum til Íslands af skipstjórunum Helga Aage Torfasyni og Pétur Karlsson og áhöfn þeirra. Tvær áhafnir verða á skipinu og úthald þess er einn mánuðir í senn.

Breytingar á millidekki

Ásbjörn segir að það muni taka einn og hálfan til tvo mánuði að breyta millidekki skipsins svo það henti til þessara veiða. „Við erum alltaf lengst norður í Ballarhafi þar sem allra veðra er von. Argos Froyanes er stærra skip og hentar vel til þessara veiða langt norður í hafi. Það var nú tilgangurinn með kaupum á þessu skipi að vera betur í stakk búnir að athafna sig á þessum slóðum,” segir Ásbjörn.

Ásbjörn er sonur Jóns Ásbjörnssonar sem stofnaði Fiskkaup árið 1983. 1988 fékk fyrirtækið fyrst allra leyfi til að selja eigin saltfiskafurðir fram hjá Sölusamtökum íslenskra fiskframleiðenda, SÍF, sem fram að því hafði haft einokun á því. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og starfa nú hjá því á bilinu 70-80 manns.

„Við höfum sérhæft okkur í grálúðuveiðum og náð ágætum tökum á þeim veiðum. Við frystum hana úti á sjó þegar hún er í hæsta gæðaflokki og við seljum hana mikið til Japans á ágætu verði.”

Fiskkaup eru ekki með stóra grálúðukvóta en hefur skipt út talsverðu af þorski fyrir grálúðu. Það eru ekki margir hérlendis sem hafa sérhæft sig í veiðum og vinnslu á grálúðu. Fiskkaup er einnig í veiðum og vinnslu á öðrum bolfiski og gerir út trefjabátinn Jón Ásbjörnsson RE innan krókaaflamarkskerfisins. Fyrirtækið rekur nútímavædda fiskvinnslu á Fiskislóð þar sem unninn er ferskur fiskur, saltaður og frosinn.