þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sex netabátar taka þátt í netarallinu

16. apríl 2018 kl. 17:00

MYND/TRYGGVI SVEINSSON

Ólíkt meiri þorskgegnd úti fyrir Norðurlandi

 

Netarall Hafró fer nú fram í 22. sinn og taka sex netabátar þátt í rallinu. Tryggvi Sveinsson rannsóknamaður hjá Hafrannsóknastofnun sagði góðan gang í rallinu sem hafði staðið yfir í viku þegar rætt var við hann.

„Það er talsvert eftir ennþá. Þeir bátar sem bjóða lægt fá þátttökurétt í rallinu. Lágmarksboð er 45% af afla en á tímabili var ekki hægt að fá báta í þetta hérna fyrir norðan. En nú er aflinn farinn að aukast það mikið hér að það er orðið eftirsótt að komast í þetta,“ sagði Tryggvi sem var leiðangursstjóri um borð í Þorleifi EA frá Grímsey.

Rannsóknirnar fara fram á sex svæðum hringinn í kringum landið. Tryggvi er jafnan úti fyrir Norðurlandi.

„Aflinn hefur verið að aukast hérna fyrir norðan. Sömuleiðis er fiskurinn stærri. Þegar ég byrjaði fyrst hérna fyrir norðan fyrir 17 árum var þorskaflinn nánast enginn eða örfá tonn eftir túrinn. Núna höfðum við dregið fjórum sinnum og fengið 18 tonn í Húnaflóa, tæp 16 tonn í Miðfirði, 16 tonn á Skagafirði og 5 tonn í Steingrímsfirði. Þetta er gjörbreyting á aflabrögðum.“

Á þriðjudagsmorgun vitjuðu þeir neta á Eyjafirði í blíðviðri  og var aflinn orðinn 16 tonn þegar enn átti eftir að draga 2 trossur.

Ný gerð af fælum prófaðar

Um það bil vika er eftir af rallinu en í framhaldinu verður tekið til við prófanir á fælum fyrir sjávarspendýr. Brögð hafa verið að því að smáhvalir og hnísur hafi komið í netin og unnið er að því að koma í veg fyrir það. Fjórar fælur eru settar á hverja trossu. Í hverri trossu eru tólf net. Fælurnar verða á fjórum trossum og síðan er önnur fælulaus lögð í nokkurri fjarlægð frá þeim til samanburðar. Í fyrra var önnur gerð af fælum prófuð en lítið gagn reyndist af henni. Nákvæmlega jafn mikið var af hnísum í netum með og án fæla.

Dýraverndarsjónarmið ráða þessu en ennfremur þarf að bregðast við hertum kröfum Bandaríkjamanna um útflutning á fiski þangað. Kröfur Bandaríkjamanna lúta að vernd sjávarspendýra við fiskveiðar og fiskeldi. Í bandarískum lögum eru ákvæði sem banna innflutning á sjávarafurðum frá þjóðum sem ekki hafa sömu eða sambærilegar reglur og Bandaríkin varðandi verndun sjávarspendýra við veiðar og eldi.