þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sex verksmiðjur uppfylla nú kröfur Kínverja

26. ágúst 2019 kl. 12:20

Í maí síðastliðnum undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, samninginn fyrir Íslands hönd.

Nú hafa sex fiskmjölsverksmiðjur hér á landi verið skráðar á lista yfir fyrirtæki sem hafa heimild til útflutnings á fiskmjöli og hrálýsi frá Íslandi til Kína, enda uppfylla þær skilyrði í samningi íslenskra stjórnvalda og Tollastofnunar Kína (GACC) varðandi þennan útflutning.

Frá þessu segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Fiskimjölsverksmiðjurnar sem um ræðir eru verksmiðjur Brims hf. á Akranesi og á Vopnafirði, verksmiðjur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði, verksmiðja Eskju á Eskifirði og Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.

Matvælastofnun hefur síðustu 3-4 ár ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu unnið að gerð samnings um heilbrigðiskröfur og eftirlit með útflutningi fiskmjöls og hrálýsis frá Íslandi til Kína.

Í maí síðastliðnum undirritaði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, samninginn fyrir Íslands hönd. Í honum koma fram sérkröfur og skilyrði sem uppfylla þarf varðandi útflutning á fiskmjöli og hrálýsi til Kína.

 

Mikilvægustu kröfur Kínverja varða örugga hitun hráefnisins og varnir gegn mengun afurðanna eftir hitameðhöndlun.