sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SFS segir að ganga þyrfti lengra

1. júní 2018 kl. 15:15

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja frumvarp atvinnuveganefndar um endurútreikning veiðigjalds skref í rétta átt, en það dugi ekki til.

„Það var tímabært að yfirvöld og atvinnuveganefnd gerðu sér grein fyrir skaðsemi hás veiðigjalds á yfirstandandi fiskveiðiári,“ segir í athugasemdum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við frumvarp atvinnuvegar um endurútreikning veiðigjalds, sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, undirritar fyrir hönd samtakanna.

„Það hefur legið ljóst fyrir frá því í september 2017, er nýtt fiskveiðiár hófst, að veiðigjaldið myndi reynast mörgum fyrirtækjum ofviða,“ segir í athugasemdunum, en alls óskaði nefndin eftir athugasemdum frá tíu tyrirtækjum og stofnunum. Skilafrestur er í dag.

Nokkrir einstaklingar hafa einnig sent inn athugasemdir.

SFS segist styðja frumvarp sem boðar leiðréttingu vegna gjörbreyttra rekstrarskilyrða sem útreikningar veiðigjalds byggja á, enda hafi samtökin sjálf kynnt ítarlegar tillögur þess efnis. Hins vegar segja þau frumvarpið bera það með sér að ekki hafi náðst að ljúka vinnu við nýja reiknireglu veiðigjalds, sem gilda eigi til frambúðar: „Er þar því í raun aðeins boðuð bráðabirgðalausn til ársloka.“

Þá segir SFS frumvarpið einungis að takmörkuðu leyti taka tillit til þeirra breyttu aðstæðna og þá um leið breyttra forsenda sem reiknigrunnur veiðigjalds byggist á. Leiðréttinga sé enn þörf á fleiri forsendum sem beinlínis séu rangar: „Miðað við orðalag í athugasemdum frumvarpsins virðist þó sem þær bíði heildarendurskoðunar sem fram mun fara í haust.“

SFS segir að með frumvarpi atvinnuveganefndar sé einungis „að hluta brugðist við einni forsendu sem verður að telja ranga í reiknigrunni veiðigjalds, þ.e. að tekið sé mið af afkomu fyrir 2-3 árum. Flestir sem hafa tjáð sig um gjaldtöku í sjávarútvegi, hvar sem í stjórnmálaflokkum þeir standa, hafa tekið undir þennan ágalla. Áhrif hans eru sérstaklega slæm þessi misseri, þegar rekstrarskilyrði í sjávarútvegi eru erfið og allt önnur en þau voru árið 2015. Að því leyti telja SFS að frumvarpið feli í sér skref í rétta átt.“

Gagnrýnt er hins vegar að í frumvarpinu sé ekki gengið alla leið við að færa gjöldin nær í tíma: „Rekstrarniðurstöður liggja fyrir í skýrslu Deloitte og samkvæmt reiknilíkani veiðigjaldsnefndar. Er því vel unnt að miða gjaldtöku við þær niðurstöður. Það er hins vegar ekki gert nema að takmörkuðu leyti og telja SFS það gagnrýnivert.“

Varðandi svonefndan persónuafslátt útgerðarfélaga segjast SFS „almennt mótfallin hvers kyns sértækum afsláttum eða ívilnunum, enda samræmast slíkar aðgerðir illa þeirri meginreglu að gjald fyrir nýtingu auðlindar skuli vera það sama óháð því hver nýtir.“