mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SFÚ vill fá að bjóða í heilan, útfluttan fisk

25. nóvember 2017 kl. 12:00

Arnar Atlason, formaður SÚF.

Smæðarhagkvæmni í sérhæfingu

 gugu@fiskifrettir.is 

Arnar Atlason, nýkjörinn formaður Samtaka án útgerðar, SFÚ, segir fyrirtæki innan samtakanna og stærri útgerðir eiga samleið í að fullnýta auðlindina. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi fiskmarkaða fyrir minni landvinnslur og segir að sjaldan sé rætt um smæðarhagkvæmni en oftar um stærðarhagkvæmni þegar talið berst að sjávarútvegi. Smæðarhagkvæmni felist í sérhæfingu í vinnslu á afurðum sem stóru útgerðarfyrirtækin sinni ekki.


 


„Innan SFÚ eru sérhæfð fiskvinnslufyrirtæki og flest eru þau án útgerðar. Áherslurnar hjá samtökunum liggja fyrst og fremst í því að koma því á framfæri við stjórnvöld að það verði að vera rúm fyrir sérhæfingu af þessu tagi. Sérhæfingin mun efla greinina og það má ekki gleymast að það eru þessi fyrirtæki sem finna smærri sérhæfða markaði sem stærri fyrirtækin gera ekki. Undirstaðan eru svo fiskmarkaðirnir sem gera þessa sérhæfingu mögulega,“ segir Arnar.

Má ekki einangra aðganginn

„Við erum með stórkostlega auðlind og prýðilegt fiskveiðistjórnunarkerfi, sem heldur utan um auðlindina og kerfi sem dreifir aflahlutdeild milli fyrirtækja. En það sem brennur á okkur og sem mér finnst að ráðamenn þjóðarinnar ættu að gefa gaum að, er að við getum ekki og megum ekki einangra aðganginn að auðlindinni. Við erum ekki fyllilega sammála því að eina leiðin að því markmiði að hámarka virðisaukann sé samtenging útgerðar og vinnslu. Í sumum tilvikum getur það átt við en í öðrum tilvikum ekki, og þá sérstaklega þegar kemur að sérhæfingu,“ segir Arnar.

Hann segir að fæst fyrirtæki innan SFÚ hafi aðra leið til að nálgast hráefni en fiskmarkaðina. Þegar rætt er um fiskveiðistjórnunarkerfið eru flestir sammála um ágæti þess en sjaldnast er rætt um fiskmarkaðina. Fiskmarkaðirnir hafa verið starfræktir álíka lengi og núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Þeir hafi byggt upp einstaklega þjált og gott kerfi. Erlendis sé oft bent á einstaka stöðu íslenskra fiskkaupenda sem geti keypt fisk hvar sem er á landinu í gegnum tölvuna á skrifborðinu og geti gengið að því vísu að fá hann til vinnslu daginn eftir.

„Þetta er algjörlega einstakt. Fiskmarkaðirnir tóku einnig stórt og merkilegt skref þegar þeir hófu uppboð í fjarskiptum, þ.e.a.s. að bjóða upp óveiddan fisk. Meðan á veiðum stendur er fiskurinn boðinn upp og þannig sparast einn sólarhringur í allri keðjunni. Fiskur sem er veiddur í þessum töluðu orðum getur verið kominn á borð neytenda víða í löndunum í kringum Ísland um það bil tveimur sólarhringum eftir að hann var veiddur.“

Þetta er virðiskeðja sem eftir er tekið, ólík því sem þekkist í útgerðarvinnslum. Seljendur og kaupendur hráefnis eru margir með mismunandi sérþekkingu.

Skortmarkaðir

Málum sé þannig vel fyrirkomið hjá fiskmörkuðunum en þeir hafa verið skortmarkaðir þar sem eftirspurn hefur til fjölda ára verið langt umfram framboð. Arnar segir að stærri útgerðafyrirtækin séu að mörgu leyti til mikillar fyrirmyndar í atvinnulífi þjóðarinnar. Vandinn sé hins vegar sá að þau séu orðin afar stór. Það eitt og sér leiði til ákveðins markaðsvanda. Þetta hafi stjórnvöld viðurkennt m.a. með því að setja á ákveðið kvótaþak.

„Við látum það líka gerast fyrir augunum á okkar að stór hluti af okkar afla fer óunninn úr landi. Þetta er gámafiskur sem fer aldrei í almennt uppboð. Um þetta gilda að sjálfsögðu engin boð eða bönn. Við erum á frjálsum markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Á sama tíma erum við samt ítrekað að ræða byggðaþróun og skort á atvinnutækifærum víða um landið. Okkur finnst það sjálfsögð krafa að við, þessi sérhæfðu fiskvinnslufyrirtæki sem og önnur, fáum að bjóða í þennan fisk áður en hann er seldur óunninn úr landi. Ef við erum ekki samkeppnisfærir í verði þá eigum við engan rétt á honum. En það er óeðlilegt að við fáum ekki að sína okkar burði,“ segir Arnar.