miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

SIF fann bát flóttamannanna

11. desember 2013 kl. 11:48

Bátur flóttamannanna sem bjargað var um síðustu helgi. (Mynd: LHG)

Ítalska strandgæslan kom 105 manns til bjargar.

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sinnir þessa dagana landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi fyrir Landamærastofnun Evrópusambandsins (EU), Frontex. Flugvélin hóf þátttöku í þessu verkefni í byrjun desember og verður á svæðinu fram yfir áramót. Um síðastliðna helgi kom flugvélin að björgunaraðgerð á svæðinu þar sem 100 sýrlenskum flóttamönnum var bjargað en fjallað var um atvikið í ítölskum fjölmiðlum á sunnudag. Bátur þeirra lenti í vandræðum um 300 sjómílur suður af Sikiley og kom ítalska strandgæslan fólkinu til bjargar eftir að áhöfn TF-SIF hafði fundið bát þeirra. Um borð voru um 80 fullorðnir og og 25 börn. Var fólkið flutt til hafnar í Sirakusa með skipum ítölsku strandgæslunnar.

Frá þessu er greint á vef Landhelgisgæslunnar. 

Flugvélin TF-SIF er afar fjölþætt eftirlits- og björgunartæki sem margoft hefur sannað gildi sitt. Um borð er lykilbúnaður við leit, björgun, löggæslu sem og eftirlit. Þar á meðal er langdræg ratsjá, með mikla greiningarhæfni og öflug hitamyndavél. Ratsjáin er sérstaklega hönnuð með eftirlit á sjó í huga og getur fundið lítil endurvörp í slæmum veðrum. Mögulegt er að opna stóra hurð á flugi til að varpa úr björgunarbátum og öðrum björgunarbúnaði til sjófarenda. Einnig hafa fallhlífastökkvarar stokkið úr flugvélinni.  Auk þess er flugvélin búin hliðarratsjá sem aðallega er notuð til mengunareftirlits og ískönnunar. Fjórir til fimm eru í áhöfn flugvélarinnar og hafa þeir öðlast mikla hæfni við notkun búnaðarins og eru upplýsingar frá flugvélinni sendar til stjórnstöðvar Frontex í Róm þar sem staðsettur er fulltrúi Landhelgisgæslunnar sem tekur þátt í samhæfingu aðgerða með öðrum viðbragðsaðilum á svæðinu.