mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sífellt fleiri stofnar teljast sjálfbærir

14. mars 2019 kl. 16:00

Makríllinn er einn þeirra stofna sem deilt er um og er því ofveiddur. Aðsend mynd

Rannsókn á 85 fiskistofnum.

Ný rannsókn virðist sýna að meirihluti fiskstofna í Norðaustur-Atlantshafi hafa náð sér á strik í kjölfar bættrar fiskveiðistjórnunar.

Norður og suður

Botninum var í raun náð um árið 2000, að sögn rannsakenda. Um 85 stofnar voru til rannsóknar þegar allt er talið. Þróun þeirra var rannsökuð á tímabilinu 1960 til 2015. Þar á meðal allir stofnar falla undir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES). Svæðið er víðfeðmt; nær frá Spánarströndum í suðri til Barentshafs í norðri. Því féllu undir rannsóknina stofnar sem hafa gríðarlegt efnahagslegt mikilvægi fyrir fjölda þjóða – síld, þorskur og makríll þar á meðal.

Hertar reglur

Þjóðir Evrópusambandsins hafa hert reglur sínar um fiskveiðar frá árinu 2000 – Norðmenn og Rússar hófu þá vinnu jafnvel fyrr, segir í grein á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.

Auk Evrópusambandslandanna, Rússlands og Noregs eiga Ísland, Grænland og Færeyjar hafsvæði sem féllu undir rannsóknina. Margir þeirra stofna sem voru skoðaðir falla ekki undir reglur eða lög einstakra landa heldur er um flökkustofna að ræða sem er veitt úr á stóru hafsvæði sem tilheyrir mörgum löndum í sumum tilvikum. Kvótasetning er því samstarfsverkefni í sumum tilfellum en eins og þekkt er nást ekki samningar um aðra stofna – nokkuð sem er sífellt á dagskrá íslenskra stjórnvalda.

Rannsóknin sýnir að margir þessara fiskistofna voru í bágu ásigkomulagi í lok tíunda áratugarins, en hafa braggast síðan. Tímabilið 1970 til 1990 er sagt tímabil ofveiði, en margir stofnar hafa náð því að kallast sjálfbærir í seinni tíð.