laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sigurfari á dragnót og Pálína Þórunn á troll

Guðjón Guðmundsson
8. febrúar 2020 kl. 10:00

Pálína Þórunn að koma til hafnar, en skipið hét áður Steinunn SF undir merkjum Skinneyjar-Þinganess. Aðsend mynd

Neskip hafa tekið tvö fyrrum skip Skinneyjar-Þinganess í notkun.

Nesfiskur og Skinney-Þinganes gengu frá samningum í mars í fyrra um kaup fyrrnefnda fyrirtækisins á Hvanney SF og Steinunni SF sem nú heita Sigurfari GK og Pálína Þórunn GK. Þetta eru skip sem voru smíðuð í Kína 2001 og hafa nú þegar hafið veiðar undir merkjum nýs eiganda.

Nýr Sigurfari leysir eldra skip með sama nafni af hólmi en það var selt fyrirtækinu Hafnarnesi VER ehf. í Þorlákshöfn þar sem það er gert út undir nafninu Jóhanna ÁR. Sigurfari er gerður út á dragnót og Pálína Þórunn á troll. Það fjölgar því um eitt skip í flota Neskips.

Tekur því ekki að fýra upp í saununni

Snorri Snorrason er skipstjóri á Pálínu Þórunni. Hann var áður skipstjóri Drangeyjar SK, nýs ferskfisktogara FISK Seafood á Sauðárkróki. Hann var í skipinu að undirbúa það fyrir veiðar þegar haft var samband við hann fyrir helgi. Snorri átti þá von á því að farið yrði út á föstudagskvöld eða laugardag í fyrsta sinn. Hann segir aðbúnað ágætan í skipinu. Reyndar séu klefarnir tveggja manna og skipið ekki nema 29 metra langt. En miðað við það sé aðbúnaðurinn bara mjög góður.

„Það væri auðvitað gott að hafa sauna og líkamsrækt en það er ekki pláss fyrir það í skipi af þessari stærð. Svo erum við ekki nema kannski tvo sólarhringa og jafnvel niður í 18 tíma að fylla skipið ef það er veiði á annað borð. Það tæki því ekki að hita upp í saununni. Auðvitað vonum við að veiðin verði þannig þegar vertíðin hefst sunnan við Selvogsbankann og Surtinn. En svo eru veiðarnir líka svo háðar kvóta og allt ræðst af honum,“ segir Snorri.

Gæti orðið flakk á Pálínu

Pálína Þórunn hefur verið í slipp frá því Snorri tók við skipinu og því mikill hugur í honum og hans mönnum að fara á sjó.

„Það þurfti að gera dálitlar breytingar á kælikerfi aðalvélar Pálínu Þórunnar en að öðru leyti voru skipin nánast tilbúin til veiða,“ segir Bergur Þór Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks.

Hann segir lítið breytast í útgerðarmynstrinu þrátt fyrir tilkomu skipanna. Um er að ræða þriggja fjögurra daga úthöld á Þórunni Pálínu og sólarhrings á Sigurfara. 7 verða í áhöfn Sigurfara og 12 í áhöfn Pálínu Þórunnar. Mun betri aðstaða verður í skipunum fyrir áhöfnina í Sigurfara enda þremur metrum breiðari en eldra skip. Hann hefur verið á veiðum alveg frá því síðastliðið haust og segir Bergur ágætan gang hafa verið í veiðunum á dragnótinni. Það færist þó yfirleitt ekki almennilegur kraftur í dragnótaveiðarnar fyrr en í febrúar. Bæði skipin munu landa í Sandgerði.

Þó gæti orðið meira flakk á Pálínu Þórunni, sérstaklega á haustin, og hún verið við veiðar þar sem fiskurinn heldur sig hverju sinni. Sóley Sigurjóns GK er til dæmis fyrir norðan núna við veiðar út af Langanesi og landar á Siglufirði.

Minna kolefnisspor

Bergur segir að ekki hafi verið mikill kraftur í veiðunum eftir áramót enda veðurfarið með afbrigðum leiðinlegt. Hann minnist ekki annarrar eins tíðar og það sem einkenni hana séu sleitulausar brælur með nánast engri hvíld á milli.

„Það hefur auðvitað verið mikil umræða um kolefnisfótspor. Við erum ekki að sigla með aflann suður því Sóley Sigurjóns eyðir jafnmikilli olíu á klukkustund og allir bílarnir fimm sem við notum til að flytja fiskinn suður. Ef skipið væri ekki að landa á Siglufirði heldur fyrir austan tæki siglingin um 30 tíma suður. Skipið væri því líka frá veiðum í 60-10 tíma,“ segir Bergur.