föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sigurganga Saucy Fish

4. október 2013 kl. 09:44

Framleiðsla á Saucy Fish.

Salan nemur væntanlega um 8,2 milljörðum íslenskra króna í ár

Mikill vöxtur hefur verið í Saucy Fish Co og nemur salan væntanlega um 50 milljónum evra í ár (8,2 milljörðum ISK). Þetta kom fram hjá Magnúsi Bjarnasyni, forstjóri Icelandic Goup, í erindi sem hann hélt nýlega á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva.

Magnús tók Saucy Fish Co sem dæmi um vel heppnaða vöruþróun og markaðssetningu á vegum Icelandic. Þessi vara væri svar þeirra við kröfum neytenda um aukin þægindi.

Hann sagði að Saucy Fish væri nú þegar vinsælasta varan í flokki ferskra kældra fiskafurða í Bretlandi. Varan væri eitt þeirra vörumerkja á matvælamarkaði í Bretlandi sem hraðast yxi. Þá hefði tímaritið The Grocer útnefnt Saucy Fish sem eitt af áhrifamestu vörumerkjum síðustu 150 ára.

„Við erum gríðarlega stolt af Saucy Fish. Varan höfðar til fólks sem kann ekki eða hefur ekki tíma til að elda fisk. Hér er um að ræða vöru sem er að svipuðum gæðum og veitingahús bjóða. Áhersla er lögð á að hráefnið sjálft sé í forgrunni. Umbúðir eru hannaðar þannig að þorskhnakkinn eða laxastykkið sést vel. Þrátt fyrir nafnið er sósan ekki áberandi. Um er að ræða létta og ferska sósu, meira í líkingu við dressing. Bragðefnin eru spennandi og höfða til ungs fólks,“ sagði Magnús.

Sjá nánar um málið í nýjustu Fiskifréttum.