sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síld á Breiðafirði sýkt af sníkjudýrinu Iktíófónus

1. desember 2008 kl. 11:15

mikið af sýktri síld í Breiðafirði

Síld á Breiðafirði og víðar er sýkt af sníkjudýrinu Iktíófónus. Nær allur fiskur sem sýkist drepst.

Hafrannsóknarstofnun hefur óskað eftir sýnum úr hverju kasti allra síldveiðiskipa. Sjómenn urðu sýkingarinnar fyrst varir á föstudag og bráðabirgðarannsókn bendir til þess að um Iktíófónus sé að ræða. Fréttastofa ríkisútvarpsins skýrði frá þessu.

Litlir nabbar standa út úr holdi þeirra fiska sem sýkjast. Hægt er að nýta sýkta síld sem veiðist í bræðslu, en ekki til manneldis.

Þetta sníkjudýr hefur ekki greinst áður í síld hér við land en hefur fundist í skarkola. Síldarstofninn við Noreg fór hinsvegar illa út úr svona sýkingu árin 1991-l993. Almennt þarf allt að 1,5% stofnsins að vera sýktur svo hægt sé að kalla þetta faraldur.

Þorsteinn Sigurðsson sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir ekki ljóst hversu alvarleg staðan er. Skipstjórar á Breiðafirði hafa gefið þær upplýsingar að talsvert hlutfall aflans sé sýkt.

Samstarf er á milli Hafrannsóknarstofnunnar og sjómanna að safna þeim sýnum sem til þess þarf. Einkenni sjúkdómsins sjást fyrst á innri líffærum, s.s. hjarta og nýrum. Sýkingin berst svo út í holdið og veldur miklum roða. Þær skemmdir sem sníkjudýrið veldur á fiskinum draga hann að lokum til dauða.

12-15 skip voru á síldveiðum í gær. Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri á Súlunni EA sagði í samtali við fréttastofu RUV að sýkingin virtist ekki vera í síldinni við Reykjanes. Veiðin þar gekk ágætlega.