miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síld mokveiðist nú í Grundarfirði

20. nóvember 2013 kl. 15:22

Síldveiðar í Breiðafirði. (Mynd: Áhöfnin á Hoffellinu).

Virðist vera að ganga inn fjörðinn í töluverðum mæli

Síldveiðiskipin eru nú komin í mokveiði á stórri og fallegri síld inni á Grundarfirði. Síldin virðist nú vera að ganga í töluverðum mæli inn í fjörðinn og hafa stóru skipin verið að fylla sig hvert af öðru nú í morgun, að því er fram kemur á vef Skessuhorns

Faxi RE var með 700 tonna kast í morgun og Álsey var laust fyrir klukkan 14 að taka við umframsíld sem Kap fékk í nótina. Þá er Hákon einnig með risakast og Bjarni Ólafsson AK er búinn að fylla sig og er nú á siglingu út fjörðinn. 

Litlu bátarnir eru einnig byrjaðir veiðar og von á fleirum meðal annars úr Stykkishólmi.  Einnig er von á Beiti, Ásgrími Halldórssyni, Vilhelm Þorsteinssyni og e.t.v. fleirum á svæðið, enda flýgur fljótt fiskisagan. Að sögn heimamanna er nú síld út um allan fjörð og háhyrningar komnir til veislunnar. 

Þá má geta þess einnig að Kristinn Ólafsson skipstjóri á Björt SH lagði í morgun net við smábátabryggjuna í Grundarfirði og fékk þar síld enda lóðaði hún upp í harða bryggjukant í morgun, að því er segir á vef Skessuhorns.