fimmtudagur, 12. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldaraflinn í Kolgrafafirði ákveðinn 1300 tonn

25. nóvember 2013 kl. 16:00

Síld

Greiða þarf 13 krónur fyrir hvert kíló af landaðri síld

Sjávarútvegsráðherra hefur sett reglugerð um úthlutun á allt að 1300 lestum af íslenskri sumargotssíld sem heimilt er að veiða innan brúar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi. Bátum sem hafa aflamarksleyfi eru heimilar veiðarnar, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Fyrirkomulag veiða er með þeim hætti að á tímabilinu 23. nóvember til og með 26. nóvember 2013 er öllum aflamarksbátum heimilar veiðar, heildaraflinn dregst frá umræddum 1300 lestum, og skulu greiddar 13 kr. fyrir hvert kg landaðrar síldar eigi síðar en 11. desember nk.

Eftir það, frá og með 27. nóvember nk. er einungis heimilt að stunda veiðar hafi viðkomandi bátur keypt aflamark í síld.

Umsóknir um aflamark á tímabilinu 27. nóvember til 30. nóvember eru afgreiddar jafnóðum og aflamarki úthlutað þegar greiðsla hefur borist stofnuninni. Frá og með 1. desember nk. mun Fiskistofa úthluta aflaheimildum vikulega á grundvelli umsókna sem borist hafa undanfarandi viku.