sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarkvótinn í Norðursjó aukinn um 50%

5. desember 2011 kl. 14:26

Síld í körfu.

Leyft verður að veiða 405 þúsund tonn af síld.

Síldarstofninn í Norðursjó er vel á sig kominn og verður heildarkvótinn á næsta ári 405.000 tonn sem er 50% aukning frá yfirstandandi ári. Þetta var ákveðið á fundi ESB og Noregs fyrir helgina þar sem gengið var frá skiptingu veiðiheimilda úr sameiginlegum stofnum í Norðursjó.

Hlutur Norðmanna í síldarkvótanum verður rúmlega 117.000 tonn. Að sögn norskra stjórnvalda kemur sér vel, að á sama tíma og kvótinn í norsk-íslensku síldinni er skertur skuli síldarkvótinn í Norðursjó vera aukinn.

Af öðru tegundum má nefna að ESB fær að veiða 16.300 tonn af þorski í norskri lögsögu á næsta ári, 1.350 tonn af ýsu og 2.250 tonn af ufsa. Í staðinn fá Norðmenn eftirfarandi veiðiheimildir frá ESB: 10.000 tonn af brislingi, tæplega 2.000 tonn af grálúðu, 150 tonn af lúðu, 1.500 tonn af karfa og 700 tonn af ufsa. Í frétt á vef Norska síldarsamlagsins segir einnig að norsk skip geti að auki fiskað 20.000 tonn af loðnu og 30.000 tonn af kolmunna samkvæmt samningnum.

Þorskkvótinn í Norðursjó er nú ákveðinn tæplega 27.000 tonn, þar af fá Norðmenn 4.500 tonn. Þá náðist samkomulag um rúmlega 79.000 tonn ufsakvóta og er hlutur Norðmanna í honum 42.000 tonn.