mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarleit ber lítinn árangur

9. júní 2011 kl. 11:11

Lundey NS (Mynd: Guðm. St. Valdimarsson)

Íslensk skip leita í Síldarsmugunni og norður í Jan Mayen lögsöguna

Fimm íslensk skip hafa leitað að síld í veiðanlegu magni norðaustur af landinu nú í byrjun vikunnar en sú leit hefur lítinn árangur borið fram að þessu, að því er fram kemur á vef HB Granda.

Lundey NS hélt frá Vopnafirði sl. mánudagskvöld og að sögn Stefáns Geirs Jónssonar, sem er skipstjóri í veiðiferðinni, er sannkallað vetrarástand í hafinu og lítið virðist vera gengið af síld á hafsvæðið sem íslensku skipin hafa sótt á til síldveiða á þessum árstíma undanfarin ár.

Þegar rætt var við Stefán Geir í gær var Lundey stödd í Síldarsmugunni á 68°30´N og 2°19´V eða í um 330 sjómílna fjarlægð frá Vopnafirði. Ferðinni var þá heitið norður í Jan Mayen lögsöguna.


,,Við erum hér ásamt Jónu Eðvalds SF, Berki NK, Beiti NK og Ásgrími Halldórssyni SF og við byrjuðum túrinn á að kanna svæðið austur af Vopnafirði og þaðan norðaustur í Síldarsmuguna. Hitastig sjávar alla leiðina út undir 200 mílurnar var þetta frá 3,0°C og upp í 3,5°C og það þýðir að það er bara vetur hér enn sem komið er,“ segir Stefán Geir en að hans sögn hafa skipin leitað mjög víða og m.a. hafi Jóna Eðvalds farið alveg austur að 0°.

Að sögn Stefáns Geirs er það s.s. ekkert nýtt að hafa þurfi fyrir því að leita að síldinni og þannig hafi síldveiðin verið frekar treg eftir sjómannadaginn í fyrra og fram yfir 20. júní. Ekki varð vart við makríl í íslensku lögsögunni á leiðinni í Síldarsmuguna en Stefán Geir sagði að einhver færeysk skip væru nú á makrílveiðum norðan við Færeyjar.