mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvinnslan birtir samfélagsspor sitt

12. september 2018 kl. 13:30

Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hefur reiknað út heildarframlag fyrirtækja Síldarvinnslusamstæðunnar til samfélagsins fyrir árið 2017.

Síldarvinnslan birtir í dag niðurstöður úr skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers um svokallað samfélagsspor fyrirtækjasamstæðunnar fyrir árið 2017.

Heildarniðurstaðan er sú að fyrirtæki samstæðunnar greiddu 4,5 milljarða króna í skatta og gjöld til hins opinbera.

Með samfélagsspori er þarna átt við heildarframlag fyrirtækjanna til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamtæðunnar töldust árið 2017 auk móðurfélagsins Bergur-Huginn ehf., Fóðurverksmiðjan Laxá hf., Runólfur Hallfreðsson ehf. og SVN eignafélag ehf.

Á síðu Síldarvinnslunnar er birtur eftirfarandi listi yfir helstu greiðslur fyrirtækjanna til samfélagsins: 

Veiðiheimildir samstæðunnar á árinu voru 18.200 tonn í þorskígildum.
Fjöldi ársverka var 360.
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 18,5 milljörðum kr. á árinu.
Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu voru 10,2 milljónir króna.
Staðgreiðsla af launum starfsmanna nam 1.176 milljónum króna.
Meðallaunakostnaður á hvert ársverk var 13,9 milljónir króna með launatengdum gjöldum.
Samstæðan greiddi 307 milljónir króna í tryggingagjald.
Framlög í lífeyrissjóði námu 402 milljónum króna.
Samstæðan greiddi 530 milljónir króna í veiðigjöld.
Samstæðan greiddi 172 milljónir í kolefnisgjald.
Greiddar voru 186 milljónir í hafnargjöld og 84 milljónir í fasteignagjöld.
Fjármagnstekjuskattur nam 267 milljónum króna.

„Til viðbótar við samfélagssporið styrkti Síldarvinnslusamstæðan sérstaklega ýmis samfélagsverkefni um 70-80 milljónir á árinu 2017,“ segir á vef Síldarvinnslunnar. „Má þar nefna styrki til listastarfsemi og íþróttastarfsemi ásamt styrkjum til björgunarsveita og annarra mikilvægra félagasamtaka. Þá hefur Síldarvinnslan lagt mikla áherslu á styrkveitingar til heilbrigðismála.“