þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldarvinnslan tók á móti 81 þúsund tonnum af loðnu

30. mars 2017 kl. 15:23

Börkur NK á loðnuveiðum á nýliðinni vertíð. Ljósm. Sigurjón M. Jónuson. Mynd af vef Síldarvinnslunnar

Hjá Síldarvinnslunni voru fryst 11.400 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markað

Segja má að nýliðin loðnuvertíð hafi verið afar góð og komið þægilega á óvart miðað við spár. Í hlut íslenskra skipa komu 193 þúsund tonn og hófust veiðar þeirra seint vegna sjómannaverkfalls. Erlend skip, einkum norsk, lögðu stund á loðnuveiðar hér við land áður en íslenski flotinn gat hafið veiðar og lönduðu þau 58.000 tonnum í íslenskum höfnum. Þannig að samtals voru unnin um 254.000 tonn á vertíðinni. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar

Reikna má með að framleidd hafi verið um 39.000 tonn til manneldis á vertíðinni, hrogn og heilfryst loðna, mest fyrir Asíumarkað. Áætluð verðmæti þeirrar framleiðslu eru 136 milljónir dollara og verðmæti mjöls og lýsis 75 milljónir dollara. Þannig að verðmæti vertíðarinnar í heild er 212 milljónir dollara eða rúmlega 23 milljarðar íslenskra króna samkvæmt gengi 15. mars sl. Ef hér væri miðað við gengið 15. mars 2016 hefði verðmæti vertíðarinnar verið 27 milljarðar króna. 

Veiðar gengu mjög vel hjá Síldarvinnsluskipunum á nýliðinni vertíð enda mikið af loðnu í sjónum og einmuna veðurblíða allan vertíðartímann. Að auki var loðnan óvenju stór og vel á sig komin. Beitir NK veiddi 13.286 tonn á vertíðinni, Börkur NK 13.464 tonn og Bjarni Ólafsson AK 8.688 tonn. Norsk skip lönduðu alls 6.500 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað á tímabilinu 5. – 17. febrúar.

Í Neskaupstað lönduðu Vilhelm Þorsteinsson EA og grænlenska skipið Polar Amaroq sjófrystri loðnu, alls 1.750 tonnum. Vilhelm landaði 388 tonnum og Polar 1.362 tonnum.

Alls tók Síldarvinnslan á móti 81.020 tonnum af loðnu á vertíðinni sem var að ljúka þegar sjófryst loðna er meðtalin. Til samanburðar má geta þess að fyrirtækið tók á móti 43.368 tonnum á vertíðinni í fyrra og 138.230 tonnum á vertíðinni 2015.

Hjá Síldarvinnslunni voru fryst 11.400 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði, en mun meira hefði verið fryst ef Rússlandsmarkaður væri opinn. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuverinu í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ. Á vertíðinni í fyrra frysti Síldarvinnslan 15.287 tonn af loðnu og loðnuhrognum og 12.105 tonn á vertíðinni 2015.

Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar tóku á móti 67.870 tonnum á vertíðinni. Verksmiðjan í Neskaupstað tók á móti 33.180 tonnum, verksmiðjan á Seyðisfirði 18.630 tonnum og verksmiðjan í Helguvík 16.060 tonnum.