fimmtudagur, 12. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldin merkt upprunamerkinu NORGE

20. nóvember 2013 kl. 13:38

Pólskar síldarafurðir með NORGE merkinu.

Næststærsti síldarframleiðandi Póllands merkir vörur sínar með þeim hætti.

Nokkur umræða hefur orðið um það innan íslensks sjávarútvegs hvort mögulegt eða vænlegt væri til árangurs að auðkenna íslenskar fiskafurðir með upprunamerki, en það heyrir til undantekninga, þegar afurðir úr íslenskum fiski eru til sölu í smásölu erlendis, að nafn Íslands komi fram á umbúðunum.

Norðmenn leggja hins vegar ofuráherslu á það í sameiginlegu markaðsstarfi að kynna erlendis hvaðan fiskafurðir þeirra komi. Þannig má nefna að fyrirtækið Seco í Póllandi, næststærsti síldarframleiðandi í landinu, hefur ákveðið að merkja útbreiddustu vörur sínar með norska upprunamerkinu NORGE með áberandi hætti, en hráefnið í vörurnar kemur frá Noregi. Þetta hefur í för með sér að pólskir neytendur munu kaupa 250.000 vörur í hverjum mánuði með slíkri merkingu.

Samhliða þessu munu Seco og Norska sjávarafurðaráðið  (Norges Sjömatråd) standa fyrir kynningarherferð í stærstu og mikilvægustu borgum Póllands. Norska upprunamerkið er orðið nokkuð vel þekkt í Póllandi og í skoðunarkönnunum segist þriðji hver neytandi kannast við það.