föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldveiðar skipa HB Granda að hefjast að nýju

9. september 2008 kl. 09:19

Ákveðið hefur verið að senda skip HB Granda til síldveiða á nýjan leik eftir það hlé sem gert var á veiðunum í síðustu viku.

Lundey NS fór til veiða í gær, Faxi RE leggur af stað í dag og Ingunn AK fer væntanlega til veiða nk. fimmtudag, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.

Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, fengu norsk og færeysk skip nokkurn síldarafla um helgina eftir nokkurra daga leit. Veiðin var innan og utan norsku lögsögunnar á um 68°N.

Hlé var gert á síldveiðum HB Granda skipanna um fyrri helgi en um 2.000 tonnum af síld var landað á Vopnafirði í byrjun síðustu viku. Íslensk vinnsluskip hafa að undanförnu leitað að síld í veiðanlegu magni í félagi við færeysk og norsk skip en sú leit bar hins vegar lítinn árangur fyrr en nú um helgina.   35 þúsund tonn af síld og makríl

Það sem af er vertíðinni hafa skip HB Granda veitt alls um 35 þúsund tonn af síld og makríl. Aflaverðmætið er um einn milljarður króna.

Alls hefur verið varið 165 úthaldsdögum á veiðunum fram að þessu og meðalaflaverðmæti á úthaldsdag er því um sex milljónir króna. Svo til allur aflinn hefur fengist innan íslensku lögsögunnar.

„Við eigum nú eftir um 20 þúsund tonna síldarkvóta og við reiknum með því að nú þegar veiðin hefur tekið sig upp að nýju að þá verði veiðisvæðið í Síldarsmugunni og norsku lögsögunni,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

 http://www.hbgrandi.is