sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Síldveiðin að færast yfir í Síldarsmuguna

24. ágúst 2010 kl. 09:15

Ljóst virðist að norsk-íslenska síldin er nú í auknum mæli að ganga úr íslenskri lögsögu norðaustur í Síldarsmuguna og lengst hafa skipin orðið að sækja aflann um 270 sjómílur ANA af Vopnafirði. Aðstæður á miðunum hafa verið frekar erfiðar síðustu dagana, kaldaskítur og töluverður tími hefur farið í að leita að síld í veiðanlegu magni. Makríll veiðist sem meðafli og hefur hlutfall hans í aflanum verið um 20% að jafnaði frá því eftir verslunarmannahelgina.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu HB Granda. Hægst hefur á veiðunum upp á síðkastið og að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda hafa aflabrögðin síðustu vikuna verið fremur dræm. Fyrir vikið hefur ekki verið hægt að halda uppi fullri vinnslu í uppsjávarfrystihúsi félagsins á Vopnafirði. Góður gangur hefur þó verið í veiðunum í sumar og á Vopnafirði er nú búið að frysta rúmlega 8.000 tonn af síldar- og makrílafurðum og er afurðamagnið svipað í hvorri tegund.

Skip HB Granda eiga nú óveidd um 17.000 tonn af veiðiheimildum ársins hvað varðar norsk-íslensku síldina og eftirstöðvar makrílkvótans eru um 3.500 tonn. Að sögn Vilhjálms er erfitt að segja til um það hve veiðiheimildirnar muni duga langt fram á haustið en vonir standi til að hægt verði að halda veiðum gangandi fram í byrjun október hið minnsta.

Sjá nánar á vef HB Granda, HÉR