laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjá fiskinn koma í pokann

17. september 2018 kl. 17:00

Fiskgreinir Stjörnu-Odda og Hafrannsóknarstofnunar. MYND/AÐSEND

Fiskgreinir er búnaður sem settur verður á trollpoka og greinir bæði tegunda- og lengdarsamsetningu aflans áður en híft er. Verður kominn í notkun innan fárra ára.

Hafrannsóknarstofnun leitar stöðugt nýrra leiða til að afla sér frekari upplýsinga um lífríkið í sjónum. Tækniþróun síðustu ára hefur verið hröð og býður nú upp á möguleika sem þóttu harla fjarlægir fyrir ekki svo löngu.

Innan fárra ára má búast við því að nýr tæknibúnaður á trollpoka geri mönnum kleift að fylgjast jafnóðum með því sem kemur í pokann, áður en hann er hífður um borð. Þessi tækni gefur möguleika á næsta skrefi eða að opna pokann og hleypa óæskilegum tegundum  í gegn, en síðan lokað þegar sá afli lætur sjá sig sem menn vilja veiða.

„Fyrsta spurningin, það fyrsta sem hver skipstjóri segir þegar trollið kemur um borð, er: Strákar, hvað er í pokanum?“ segir Haraldur Arnar Einarsson, fiskifræðingur á Hafró. Hann segir að þessi spurning verði óþörf þegar Fiskgreinir verður orðinn að veruleika.

„Þetta verður tilbúið eftir þrjú ár,“ segir Sigmar Guðbjörnsson hjá Stjörnu-Odda. „Við sjáum fyrir okkur að þá verði Hafrannsóknarstofnun kominn með þetta í notkun.“

Hafrannsóknastofnun og Stjörnu-Oddi fengu í vor styrk úr Tækniþróunarsjóði til að þróa búnaðinn, sem nefnist Fiskgreinir. Hampiðjan er einnig samstarfsaðili að þessu verkefni, en á vegum hennar er verið að þróa nýja tegund af gagnakapal og hefur Hampiðjan einnig fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði til þess verkefnis.

Naflastrengur frá Hampiðjunni
„Samskiptin við skip hafa verið ákveðinn þröskuldur hingað til. Menn hafa bara verið með eins konar hljóðmódem sem sendir hljóðmerki upp í skip, en bandvíddin á slíkri tækni er mjög lítil. Það tekur kannski hálftíma að senda eina mynd upp í skip,“ segir Haraldur

„Eða lengur,“ skýtur Sigmar inn í.

Kapallinn frá Hampiðjunni, sem nefnist Dynice Optical Data kapall, mun þar gegna mikilvægu hlutverki.

„Þetta verður naflastrengurinn, þráður niður í trollið sem við getum notað til að senda bæði orku niður og tölvuskipanir og líka til að fá myndir upp,“ segir Haraldur.

Með því að senda orkuna úr skipinu beint niður í búnaðinn minnkar þörfin fyrir rafhlöður verulega og þar með verður búnaðurinn fyrirferðarminni en ella.

Það var Hafrannsóknarstofnun sem hafði frumkvæði að því að fá Stjörnu-Odda til að smíða Fiskgreini. Stjörnu-Oddi hafði áður búið til svipaðan búnað, sem nefndist Fiskvali, en var bæði frumstæðari og þyngri í vöfum vegna stærðar og þyngdar.

Fiskgreinirinn sjálfur verður ekki stór eða fyrirferðarmikill, eins konar kassi eða rör sem fiskurinn fer í gegnum áður en hann fer inn í trollpokann sjálfan. Að útliti er þetta ekki ólíkt Árvaka, íslenskum búnaði frá Vaka hf sem settur hefur verið upp víða í ám hér við land og víðar um heim, sem Fiskifréttir hafa fjallað um. Tæknin er þó allt önnur, því í Árvaka eru myndavélar sem sýna hvern einasta fisk sem syndir í gegn en Fiskgreinirinn skannar fiskinn með öðrum hætti.

Í verkefnalýsingu til Tækniþróunarsjóðs frá því fyrr á árinu segir um tækjabúnaðinn: „Ljós og lasertækni skannar fiskinn í búnaði fremst á vörpupoka, greinir gögnin og sendir upplýsingarnar í rauntíma upp í skip með DynIce Optical Data kapli (eða hljóðmerki).“

Fylgst með trollinu í beinni
„Hugmyndin er sú að setja slíkan skanna í trollið og pokinn verði hafður opinn til að byrja með,“ segir Haraldur. Í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar verði hægt að fylgjast með því hvar, hvenær og hvaða fisktegundir koma inn í trollið en hleypa þeim strax út um opinn pokann.

„Þetta sparar skipatíma. Þannig komast menn væntanlega yfir stærra svæði  en sýnishorn yrði tekið öðru hverju til frekari greininga.

Núna er það þannig, þegar við erum í rannsóknarleiðöngrum og sérstaklega í bergmálsmælingu, að við höfum nokkuð góða hugmynd um hvað við erum að sjá á tækjunum. Við vitum hvort það er loðna eða síld en við vitum ekki alveg lengdarsamsetninguna og viljum líka fá tryggingu fyrir því að þarna sé loðna eða síld á ferðinni. Til að finna það út þurfum við að kasta út trolli og toga í dálítinn tíma, hífa svo upp og skoða aflasamsetninguna.

En svo þurfum við að skálda inn í það hvar þessir fiskar komu inn, á hvaða tíma og á hvaða dýpi.“

Með hinni nýju tækni þarf ekki lengur að skálda í eyðurnar, því menn geta fylgst með því jafnóðum um borð hvaða fiskur er að koma inn í trollið.

„Þú setur bara trollið niður og skannar það sem kemur inn. Við sjáum að þessi tegund kemur inn í upphafi togs, svo dálítið af annarri tegund í miðju og svo í restina erum við kannski að fá karfann.“

Hugmyndin er sú að Hafró fái þennan búnað til afnota fyrst í stað en í framhaldinu standi hann útgerðarmönnum og öðrum til boða, kjósi þeir að nýta sér þessa nýju tækni.

„Það er enginn sem segir að búnaðurinn geti ekki farið nánast óbreyttur í fiskitroll. Fiskurinn fer þar í gegn áður en hann fer í pokann,“ segir Sigmar.

„Skipstjórnarmennirnir geta þá stýrt því sjálfir hvað kemur inn í trollið. Ef það eru óæskilegar tegundir eða óæskileg blanda þá kippa þeir náttúrlega og færa sig um set eða gera eitthvað annað.“

Karlinn minn, hífðu núna
Þegar upplýsingarnar frá trollinu eru á annað borð komnar upp í brú er hægur vandi að senda þær áfram í land.

„Um leið og þú ert kominn með þennan streng þarna niður, þá getur útgerðarstjóri hvar sem hann er á jörðinni, og jafnvel í símanum sínum, fylgst með hvað er verið að veiða í núinu einhvers staðar. Hann bara hringir í skipstjórann og segir: Karlinn minn, hífðu núna,“ segir Haraldur. „Þetta verður nú kannski ekki vinsælt hjá skipstjórum reyndar.“

Þeir Sigmar og Haraldur eru báðir sannfærðir um að þetta sé fyllilega raunæft. Tæknin liggur þegar fyrir og nú þurfi ekki annað en að raða hlutunum saman svo allt gangi upp.

Sigmar slær þó varnagla: „Það er ekki fyrr en maður fer á vettvang og prófar hlutina, þá rekst maður á eitt og annað. Maður þarf stundum að finna lausnir.“

Fyrirtæki hans, Stjörnu-Oddi, hefur þó langa reynslu af því að framleiða örsmá mælitæki og merkingarbúnað til að nota við erfiðar aðstæður til að fylgjast með lífríkinu.

„Tæknin er hérumbil til staðar, en ýmis ljón auðvitað í veginum,“ segir Haraldur. Þetta er ekki auðvelt umhverfi. Búnaðurinn þarf að þola mikið dýpi, mikinn þrýsting og alls konar læti, bæði uppi á dekki og niðri í sjó. Óvæntar uppákomur eins og stóra steina, hákarla og hvaðeina. Þetta þarf allt saman að yfirvinna á einhvern hátt.“

Tregða útgerðanna
Þessi nýja tækni býður upp á margvíslega möguleika, ekki bara til hafrannsókna heldur ekki síður við veiðarnar sjálfar og fiskveiðistjórnun. Þeir Haraldur og Sigmar eru þó ekki alveg sannfærðir um að útgerðin og skipstjórar taki þessu fagnandi.

„Manni finnst útgerðir stundum vera mjög framtakssamar og skapandi í ákveðnum málum, en aftur á móti þegar kemur að því sem er í sjónum þá virðist manni þeir hafa verið svolítið íhaldssamir. Þeir hafa ekki verið að fjárfesta mikið í tækni eins og þessari. Ef menn hefðu gert það gætum við verið tíu árum framar núna“ segir Sigmar.

Haraldur tekur undir þetta: „Tæknistig um borð í fiskiskipum er orðið mjög hátt. Menn eru umkringdir alls konar skjám, forritum og tækjum sem hjálpa mikið við veiðarnar, en tæknistigið á veiðarfærinu sjálfu hefur ekki breyst neitt sérlega mikið. Skipstjórinn veit það af reynslu hvar fiskinn er að finna, en hann veit í raun ekkert um samsetningu aflans fyrr en hann kemur upp á dekk. En þegar þeir eru komnir með þennan búnað þá vita þeir strax hvort þeir eru að eyða tímanum í ranga tegund.“