sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarafurðir 42% af vöruútflutningi

28. febrúar 2008 kl. 10:29

Útfluttar sjávarafurðir 128 milljarðar 2007

Heildarútflutningur sjávarafurða nam um 128 milljörðum króna á árinu 2007 og jókst hann um 4,4% frá árinu áður, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands.

Sjávarafurðir voru um 42% af heildarvöruútflutningi á árinu 2007 en árið 1999 var þetta hlutfall 67%.

Á sama tíma hefur ál aukist úr 15% af vöruútflutningi í 29%.

Árið 2007 voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 302,8 milljarða króna. Heildarverðmæti vöruútflutnings er 64,2 milljörðum, eða 27%. meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður.

Stærstu liðir útfluttra sjávarafurða voru fryst fiskflök, ferskur fiskur og saltaður og/eða þurrkaður fiskur. Útfluttar iðnaðarvörur voru 39% alls útflutnings og var verðmæti þeirra um 30% (27,2 milljörðum) meira en árið áður.

Ál vó þyngst í útflutningi iðnaðarvöru, nam rúmum 80 milljörðum króna eða tæpum 27% af heildinni. Árið 1999 nam útflutningur áls um 15% af heildarvöruútflutningi. Álframleiðsla mun aukast verulega á þessu ári þegar álverið á Reyðarfirði hefur verið tekið að fullu í notkun. Á næstu tveimur árum má þannig búast við því að álið velti sjávarafurðum úr sessi sem mikilvægasta útflutningsvara Íslendinga.