laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarafurðir hækka lítillega á ný

29. ágúst 2009 kl. 11:00

Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hækkaði um 0,4% í júlí síðastliðnum, að því er fram kemur í samantekt hjá IFS Greiningu. Byggt er á tölum um framleiðsluverði í júlí sem Hagstofan birti í gærmorgun.

Í samantekt IFS Greiningar segir ennfremur að afurðaverðið hefði áður lækkað í júní en hækkaði nú lítillega. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð lækkað um 5,2% mælt í erlendri mynt. Tölurnar í morgun gefa vísbendingu um að aðstæður á mörkuðum erlendis séu að ná meira jafnvægi en verið hefur. Ýmis jákvæð teikn hafa komið fram í nýlegum hagvísum um aukinn hagvöxt á helstu mörkuðum. Svo virðist þó sem enn sé nokkur samdráttur í Evrópu en staðan betri í Bandaríkjunum. Horfur fyrir árið 2010 eru betri og því ætti spurn eftir sjávarafurðum að aukast eitthvað á næsta ári. Almennt hefur verð á hrávörum á heimsmarkaði hækkað á síðustu mánuðum.

 ,,Afurðaverðið nú er álíka hátt og um mitt ár 2006. Ýmsar aðrar hrávörur sýna að þær eru einnig álíka dýrar og fyrir þremur árum. Flest bendir til að sú mikla verðhækkun sem varð á sjávarafurðum sem og öðrum hrávörum á árunum 2007-2008 hafi verið bóla. Núverandi verð er að okkar mati ásættanlegt fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Við væntum mun hóflegri hækkana á afurðaverði á næstu árum,“ segir í samantekt IFS Greiningar.