föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarklasi stofnaður í Færeyjum

6. júlí 2020 kl. 14:30

Þór Sigfússon stjórnarformaðu Íslenska sjávarklasans. MYND/Eyþór

Fimmti sjávarklasinn utan Íslands stofnaður í samstarfi við Íslenska sjávarklasann

Færeyski sjávarklasinn var nýverið stofnaður og hafa Færeyski sjávarklasinn og Íslenski sjávarklasinn skrifað undir samning um samstarf klasanna. Í samningnum hyggjast klasarnir efla samvinnu sín í milli og stuðla að auknu samstarfi frændþjóðanna á öllu er við kemur bláa hagkerfinu.

Þetta kemur fram í tlikynningu frá Íslenska sjávarklasanum. Þar segir ennfremur:

„Íslenski sjávarklasinn mun liðsinna Færeyska sjávarklasanum við uppbyggingu á fyrstu misserum færeyska klasans með því meðal annars að kynna hvernig klasastarfsemin hefur farið fram hérlendis og áherslur Íslenska sjávarklasans á fullvinnslu afurða, eflingu sprotafyrirtækja og nýsköpunar.

Færeyski sjávarklasinn er fimmti sjávarklasinn sem til verður utan Íslands fyrir tilstilli Íslenska sjávarklasans. Fyrir eru sjávarklasar í Maine-, Alaska, Washington- og Massachusettsfylkjum í Bandaríkjunum.  Fleiri fylki í Bandaríkjunum og önnur lönd hafa sýnt því áhuga að stofna sjávarklasa að íslenskri fyrirmynd. Færeyski  klasinn getur nýtt sér þetta tengslanet klasa og liðsinnt jafnframt þannig færeyskum fyrirtækjum sem hyggjast efla útrás.

„Við erum afar ánægð með að fá vini okkar í Færeyjum af stað í þessa vegferð. Von okkar er að byggt verði á svipaðri hugmyndafræði þar og hér og að það takist að efla frumkvöðlastarfsemina,” segir Þór Sigfússon stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans. Íslenski sjávarklasinn hefur unnið að verkefni sem lýtur að því að kynna hvernig efla megi hafnir sem vettvang nýsköpunar á Norðurlöndunum. Verkefnið nefnist “NordMar Ports” og er stutt af Norðurlandaráði. „Þetta samstarf gefur okkur tækifæri til að kynna betur þau tækifæri sem við teljum að felist í nýsköpunarstarfsemi eins og í Húsi sjávarklasans”, segir Þór.

Nokkur af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Færeyja, rannsóknarmiðstöðvar og þjónustuaðilar eru nú þegar orðnir aðilar að Færeyska sjávarklasanum og samstarfsfyrirtækjum fjölgar hratt.  „Við erum hæstánægð með að skrifa undir þennan samstarfssamning við Íslenska sjávarklasann. Við höfum fylgst með árangursríkri uppbyggingu hans um langt skeið og við trúum því að í samstarfi við hann og aðra sjávarklasa geti orðið til mikil verðmæti“, segir Unn Laksá framkvæmdastjóri Sjókovin í Færeyjum."