þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávartengd nýsköpun

16. maí 2012 kl. 08:00

Háskólasetur Vestfjarða er staðsett á Ísafirði.

Háskólasetur Vestfjarða býður nýja námsleið á meistarastigi.

Í haust hleypir Háskólasetur Vestfjarða af stokkunum nýrri námsleið á meistarastigi sem ber heitið Sjávartengd nýsköpun. Um er að ræða 90 eininga hagnýtt meistaranám, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Sjávartengd nýsköpun er vítt skilgreind, enda á hún sér stað í fjölmörgum greinum: Sjávarútvegi og eldi, matvælaframleiðslu, í tæknigeiranum og orkuframleiðslu, en ekki síður í ferðamennsku, menningu svo fátt eitt sé nefnt.

Námið gefur nemendum innsýn í málefni hafs og stranda frá ýmsum sjónarhornum sem og eðli og skilyrði nýsköpunar og reksturs smá- og örfyrirtækja. Með fullþróun nýsköpunarverkefnis, sem vegur 50% af heildareiningafjölda námsins, sýna nemendur fram á færni til að móta og framkvæma nýsköpunarhugmynd, hvort sem það er innan starfandi fyrirtækis eða með nýjum rekstri.

Nánari upplýsingar um námið má nálgast á heimasíðu Háskólaseturs Vestfjarða.