þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins í heimsókn á Íslandi

29. október 2008 kl. 09:14

Undanfarna daga hefur tuttugu manna hópur þingmanna úr sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins verið í heimsókn hérlendis.

Á dagskránni voru m.a. heimsóknir til Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, LÍÚ, Landssambands smábáteigenda og Landhelgisgæslunnar.

Þá áttu nefndarmenn fund með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis í húsakynnum þingsins og sóttu auk þess ráðuneytið heim.

Nefndarmenn heimsóttu fiskiðjuver HB Granda á Norðurgarði í gær, ræddu við helstu stjórnendur félagsins, fylgdust með vinnsluferlinu og þáðu loks hádegisverð með starfsmönnum félagsins þar sem fiskafurðir HB Granda voru uppistaðan í glæsilegu sjávarréttahlaðborði.

Meðal þess sem boðið var upp á var heitreyktur þorskur, Parmaskinkuvafinn karfi, pönnusteiktur karfi í humarsósu, djúpsteiktur ufsi í chili sósu, saltaður ufsi með tómötum og ólífum og saltfisksalat.

Heimsókninni lýkur með því að gestirnir skoða Tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað við Grindavík árdegis í dag.

Frá þessu er skýrt á heimasíðu HB Granda.