þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsráðherra boðar ríkisleigu á þorski, ýsu, ufsa, karfa og síld

14. október 2010 kl. 14:50

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra upplýsti á aðalfundi Landssambands smábáteigenda í dag að hann myndi beita sér fyrir því að gefnar yrðu út auknar aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa og íslenskri sumargotssíld á þessu fiskveiðiári og að kvótarnir yrðu boðnir til leigu gegn sanngjörnu gjaldi, líkt og tíðkaðist nú með skötusel.

Ráðherrann sagði að viðskipti með aflamark væru í lágmarki og margar útgerðir ættu í erfiðleikum með að fá nauðsynlegar aflaheimildir til þess að stunda blandaðar veiðar. Slíkt ástand yki lýkur á brottkasti.

Auk þess væri nú frekar en nokkru sinni fyrr brýn nauðsyn á að tekjur þjóðarbúsins yrðu auknar á öllum sviðum þegar harður niðurskurður blasti við í grunnþjónustu samfélagsins.

Ekki gat ráðherrann þess hversu mikil kvótaaukningin yrði en frumvarp um þessar breytingar verður lagt fram á Alþingi.

Þá sagði ráðherrann ennfremur að í ljósi þess að meira bæri á meðafla í löngu og keilu við þorsk- og ýsuveiðar vegna aukinnar útbreiðslu þessara tegunda myndi hann leggja til að ákveðið hlutfall afla löngu og keilu yrði utan kvóta gegn því að farið yrði með aflann líkt og með VS-aflann núna, þ.e. að aflanum yrði landað á markaði og að hluti af andvirði hans rynni til ríkisins.