mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsráðherra heimilar hvalveiðar í 5 ár

27. janúar 2009 kl. 17:39

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf í dag út reglugerð um veiðar á hrefnu og langreyði á árunum 2009-2013. Leyfilegur heildarafli skal nema þeim fjölda dýra sem kveðið er á um í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar. Heimilt er að flytja allt að 20% af veiðiheimildum hvers árs yfir á næsta ár á eftir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjávarúvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Þess má geta að ekki liggur fyrir veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar fyrir yfirstandandi ár hvað hrefnu varðar, en veiðiráðgjöfin fyrir árið 2008 var að hámarki 100 dýr. Síðasta veiðiráðgjöf fyrir langreyði var 150-200 dýr á ári.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að sú ákvörðun að veiðiheimildir séu til 5 ára sé í samræmi við almenna venju innan Alþjóðahvalveiðiráðsins. Þetta eigi til að mynda við um veiðiheimildir Bandaríkjanna.

Ennfremur segir: „Veiðar á langreyði hófust í atvinnuskyni haustið 2006, en hafa legið niðri síðan vegna óvissu um sölu afurða. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt. Veiðar á hrefnu í vísindaskyni hófust árið 2003 og lauk árið 2007. Alls voru veidd 200 dýr. Veiðar á hrefnu í atvinnuskyni hófust árið 2006 og hafa verið stundaðar síðan. Alls hafa 46 dýr verið veidd í atvinnuskyni og afurðirnar að langmestu leyti farið á innlendan markað. Á þessum tíma hafa því alls verið veiddar 246 hrefnur.

Leyfi til veiða á hrefnu á árunum 2009-2013 skal veita þeim íslensku skipum sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.“