laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsráðherra svíkur dragnótamenn

2. júní 2010 kl. 14:28

„Það er ekki hægt að segja að það komi lengur á óvart, en okkur þykir það samt miður að enn á ný skuli Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ganga á bak orða sinna," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ á vef samtakanna. Hann segir að ráðherra hafi á fundi með dragnótamönnum lofað að fara frekar yfir málið með þeim áður en til ákvörðunar kæmi. Það loforð hafi verið svikið.

Ráðherra tilkynni í gær þá ákvörðun sína að banna dragnótaveiðar í sjö fjörðum næstu fimm árin. Lokunin tekur gildi næstkomandi mánudag, 7. júní. Friðrik segir að með ákvörðun ráðherra sé alvarlega vegið að rekstrargrundvelli útgerða dragnótabáta sem stundað hafi veiðar í þessum fjörðum. Aðdragandinn sé einnig ótrúlega skammur. Enginn tími sé gefinn til þess að bregðast við breyttum aðstæðum. „Tillögurnar voru fyrst lagðar fram í lok apríl. Óskað var eftir athugasemdum fyrir 20. maí en málið er síðan keyrt í gegn án þess að taka nokkurt tillit til þeirra," segir framkvæmdastjóri LÍÚ.

Hafrannsóknastofnunin birti í vetur skýrslu um rannsókn sína í Skagafirði. Orðrétt segir í skýrslunni: „Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði."

„Ráðherra hefur til þessa ekki haldið niðurstöðum skýrslunnar á lofti enda styðja þær ekki ákvörðun hans. Nú er skyndilega vitnað til skýrslunnar og niðurstöðurnar sagðar oftúlkaðar. Staðreyndin sem við öllum blasir er að það eru engin vísindaleg rök að baki þessari geðþóttaákvörðun ráðherra," segir Friðrik.