mánudagur, 16. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjávarútvegsráðherra: Vægi sjávarútvegs eykst við fall fjármálageirans

23. október 2008 kl. 15:05

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir ljóst að við fall fjármálageirans aukist vægi sjávarútvegs í íslenska þjóðarbúskapnum frá því sem verið hafi á allra síðustu árum.

Nú þurfi að tryggja eðlileg gjaldeyrisviðskipti og koma á stöðugu gengi svo fyrirtækin geti unnið snurðulaust og sjávarútvegurinn verði sá burðarás sem við blasi á Íslandi á komandi vikum og mánuðum.

Þetta kom fram í ræðu ráðherrans á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í dag. 

„Mín skilaboð til ykkar og annarra í sjávarútvegi eru þess vegna mjög skýr. Menn eiga ekki að leggja árar í bát við þessar aðstæður. Þótt staðan á efnahagsreikningum sé slæm um þessar mundir vegna hins lága gengis, er það aðeins um stundarsakir. Gengi krónunnar er langt undir jafnvægisgengi og mun styrkjast þegar frá líður. Við það lækka erlendar skuldir sjávarútvegsins eins og annarra atvinnugreina, mælt í innlendri mynt,” sagði ráðherrann.

Einar vék einnig að þeirri hugmynd sem fram hefur komið að auka þorskkvótann vegna efnahagserfiðleikanna. Hann sagði það skyldu sína sem ábyrgs sjávarútvegsráðherra að gaumgæfa stöðuna í þaula með tilliti til núverandi efnahagsástands.

Ekki verði þó flanað að neinu og í hremmingum undanfarinna vikna hafi ekki gefist tóm til að skoða þetta með fullnægjandi hætti.

,,Niðurstaða liggur því ekki fyrir en til grundvallar verður haft að leiðarljósi að við erum ábyrg auðlindanýtingarþjóð. Við njótum góðs orðspors af þeim ástæðum á veigamestu mörkuðum okkar og megum ekki undir neinum kringumstæðum fórna þeim ávinningi,” sagði hann. 

Ræðuna í heild má sjá HÉR.