mánudagur, 23. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjö hnúfubakar merktir í Arnarfirði

9. september 2019 kl. 09:50

Merki skotið í hval. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Stefnt er að því að merkja fleiri hnúfubaka í loðnuleiðangri sem hefst í lok september.

Hafrannsóknastofnun hefur um árabil staðið fyrir merkingum á hvölum með gervitunglasendum. Markmið rannsóknanna er að auka þekkingu á hegðun hvala við landið og fari þeirra frá Íslandsmiðum að haustlagi.

Frá þessum rannsóknum segir á vef Hafrannsóknastofnunar.

Árið 2018 voru rannsóknir þessar efldar í tengslum við víðtækar rannsóknir á loðnu og vistfræðilegum tengslum hennar við aðrar lífverur sjávar. Hnúfubak hefur fjölgað mikið við Ísland á síðustu áratugum og er tegundin hér við land í meira mæli að vetrarlagi en aðrar tegundir skíðishvala. Talsverður fjöldi hnúfubaka hefur sést á loðnumiðum á veturna og virðast þeir fylgja loðnugögnum að einhverju marki, þótt hluti stofnsins fari á æxlunarstöðvar í Karíbahafi og við Grænhöfðaeyjar á veturna.

Margt er óljóst varðandi ferðir hnúfubaka og hugsanleg tengsl þeirra við loðnustofninn og er merkingunum m.a. ætlað að varpa ljósi á þessi tengsl. Gervitunglasendunum er komið fyrir á baki hvalanna með loftbyssu sem er sérhönnuð til slíkra merkinga. Auk merkinganna eru tekin lífsýni af hnúfubökunum, en greining ísótópa í slíkum sýnum geta gefið vísbendingar um fæðusamsetningu hnúfubaks hér við land sem er nánast óþekkt.

Þann 2 september s.l. voru merktir 7 hnúfubakar í Arnarfirði. Merkingarnar tókust vel og hafa borist upplýsingar um ferðir 6 dýranna. Á þeim fjórum dögum sem liðnir eru frá merkingu hafa hvalirnir haldið sig innan Arnarfjarðar en ferðast talsvert innan fjarðarins.

Stefnt er að því að merkja fleiri hnúfubaka í loðnuleiðangri sem hefst í lok september.