mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjö skipa raðsmíðaverkefni lokið

Guðjón Guðmundsson
11. janúar 2020 kl. 09:00

Þinganesið við komuna til heimahafnar rétt fyrir jólin. Mynd/Sverrir Aðalsteinsson

Með nýju Þinganesi sér fyrir endann á miklum endurnýjunarfasa íslenskra togskipa.

Margeir Guðmundsson og fimm úr áhöfn hans á nýju Þinganesi SF komu til heimahafnar á Höfn í Hornafirði 21. desember síðastliðinn eftir þriggja daga siglingu frá VARD skipasmíðastöðinni í Brattavogi. Þar með hefur Skinney-Þinganes tekið á móti báðum togskipunum sem sem voru hluti af sjö skipa raðsmíðaverkefni fyrir Skinney-Þinganes, Gjögur, Berg-Huginn og Útgerðarfélag Akureyringa.

Snemma í desember kom Steinunn SF til landsins og er nú unnið að því að setja vinnslulínu og millidekk í skipið í Hafnarfirði. Þinganes var hins vegar yfir hátíðirnar í heimahöfn  í Hornafirði og átt sinn þátt í að skreyta bæinn með jólaljósum. Stefnt er að því að sigla Steinunni allra næstu daga til Hafnarfjarðar þar sem fyrirtækin Micro og Valka setja í hann vinnslulínu og millidekk.

Margeir og áhöfnin hélt til Noregs um mánaðamótin nóvember-desember en dálitlar tafir urðu á afhendingu skipsins. Þeir lögðu síðan úr höfn í Brattavogi 18. desember.

30 metrar og 8 metra ölduhæð

„Við fengum fínt veður fyrri helming leiðarinnar en það var annað uppi á teningnum í seinni hálfleik. Það gerði norðaustan storm og vindhæðin fór upp í um 30 metra á sekúndu með 7-8 metra ölduhæð á tímabili þegar við vorum komnir upp að landgrunninu. Það reyndi því á skipið en það bar sig mjög vel. Það velta náttúrulega allir bátar þegar þeir fá á sig stórar öldur en hann fór bara vel með þetta. Mér líst vel á bátinn sem er ótrúlega þýður og hljóðlátur. Hornafjarðarósinn var aðeins úfinn en engin læti í honum. Hann er yfirleitt þokkalegur í norðvestan- og austanáttum en suðvestanáttin er verst upp á kvikuna að gera,“ segir Margeir.

Meðalhraðinn var í kringum tæpar níu mílur sem er svipaður ganghraði og á Skinney fyrir breytingar. Það dugi ágætlega og Margeir segir að sér skiljist að togið sé mikið þótt enn hafi ekki reynt á það við veiðar. Skipið er með tvær vélar og tvær skrúfur og lipurt í snúningum. Meðaleyðslan á heimsiglingunni var um 120-130 lítrar. Það verða tólf í áhöfn togskipsins þegar haldið verður til veiða.

„Við erum næstir í röðinni hjá Micro og Völku. Áskell og Steinunn eru á undan og okkur verður líklega skipt út fyrir Áskel á kajanum. Það er spenningur í mönnum að geta hafið veiðar og vonandi náum við að fara af stað á vertíðinni. Þetta er orðinn öflugur og glæsilegur floti hjá Skinney-Þinganes og eftirvæntingin er talsverð.“

57 daga sigling frá Tævan

Margeir hefur starfað hjá Skinney-Þinganesi í bráðum 20 ár. Árið 2008 var hann ráðinn skipstjóri á nýrri Skinney og hans fyrsta verk var að fljúga til Tævan og sigla skipinu heim. Heimsiglingin tók 57 daga og kom skipið til heimahafnar 7. apríl 2009. Hann sigldi svo Skinney heim úr breytingum í Póllandi síðastliðið vor. Þar var Þóri SF einnig breytt og bæði skipin lengd um tíu metra.

Með nýju Þinganesi sér fyrir endann á miklum endurnýjunarfasa íslenskra togskipa. Sem fyrr segir smíðaði VARD alls sjö skip fyrir íslenskar útgerðir; Vestmannaey og Bergey fyrir Berg-Huginn, Vörð og Áskel fyrir Gjögur, Steinunni og Þinganes fyrir Skinney-Þinganes og Harðbak fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Skrokkar skipa Gjögurs og Skinney-Þinganess voru smíðaðir í skipasmíðastöð VARD í Víetnam og voru fluttir til Noregs með flutningaskipinu Jumbo Jubilee þar sem þeir komu til hafnar í maí á síðasta ári. Þar voru skipin fullkláruð að öðru leyti en því að vinnslulínur og millidekk eru sett í þau á Íslandi.