fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóeldi hefst í Patreksfirði

21. maí 2019 kl. 14:55

Nýja sjóvinnuskipið Arnarnes lengst til vinstri ásamt Kópanesi og Hafnarnesi. MYND/Bernharður Guðmundsson

Arctic Fish tekur við nýjum sjóvinnubát smíðuðum í Noregi

Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hóf í síðustu viku sjóeldisstarfsemi í Patreksfirði. Í tengslum við hana hafa fjórir Patreksfirðingar verið ráðnir til starfa hjá Arctic Fish og er heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækisins á Vestfjörðum nú kominn á sjötta tug, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.  

Meginhluti sjóeldis Arctic Fish er þó áfram í Dýrafirði en fyrirtækið hóf fyrst starfsemi á Vestfjörðum fyrir tæpum átta árum. 

Á dögunum kom til landsins mjög öflugur sjóvinnubátur sem notaður verður til að þjónusta nýju eldisstöðina í Patreksfirði. Báturinn var smíðaður í Noregi og hefur fengið nafnið Arnarnes. 

Arnarnes er tvíbytta, 13,5 metrar að lengd og 7,5 metrar á breidd, smíðuð af Moen Marine í Noregi.  

Báturinn er útbúinn 41 tonn metra marine krana frá Palfinger, auk krana eru tveir koppar, annar 3 tonn og hinn 5 tonn. Báturinn er útbúinn með tveim 380 hestafla Scania vélum sem koma með gír og skiptiskrúfu frá Nogva.  

Einnig er um borð 24 kílóvatta Nanny ljósavél og 50 hestafla bógskrúfa. Í brúnni eru siglingatæki frá Furuno og björgunarbátar frá Viking. Um borð má m.a. finna verkstæði og afar góða aðstöðu fyrir áhöfn.  

Arctic Fish vinnur um þessar mundir einnig að uppbyggingu seiðaeldisstöðvar í Tálknafirði og verður fyrstu áföngum hennar lokið í haust.