mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjókvíar sem henta íslenskum aðstæðum

11. júlí 2008 kl. 10:06

Mikil tjón hafa hlotist á eldisbúnaði, einkum sjókvíum, sökum erfiðra umhverfisaðstæðna við Ísland.

Í fréttatilkynningu frá Matís er sagt frá verkefninu Norðurkví. Því verkefni var  hrundið af stað með það að markmiði að hanna og smíða sjókvíar sem uppfylla ýtrustu kröfur um styrk og þol fyrir íslenskar aðstæður.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, SINTEF Fiskeri og havbruk, Hafrannsóknastofnun, Veðurstofu Íslands og Hraðfrystihúsið Gunnvöru.

Í verkefninu verða tekin saman gögn um séríslenskar umhverfisaðstæður sem taka þarf tillit til við hönnun á sjókvíum fyrir íslenskar aðstæður. Einnig verður kannað hvort kvíalausnir, sem nú eru á markaði, henti við umhverfisaðstæður hér á landi.

Þá á að  þróa, ef þörf er á, núverandi kvíalausnir að þeim aðstæðum sem hér eru.

Að lokum þarf að prófa þær lausnir sem finnast í verkefninu við raunverulegar aðstæður á Íslandi með tilliti til áhrifa þeirra á fiskinn sem í þeim er alinn og hvernig þær henta sem vinnustaður.

Í tilkynningu Matís segir að hér sé á ferðinni rannsókn sem skila mun niðurstöðum sem nýtast mun öllum þeim aðilum sem starfa að sjókvíaeldi hér við land.

Í tilefni verkefnisins mun hafa kviknað eftirfarandi vísukorn sem byggir á gamalli íslenskri þulu sem hefur verið staðfærð eftir aðstæðum:

Fiskur minn í kví, kví,

kvíddu ekki því,því;

Við skulum ljá þér burðugra ból

að busla í

og busla í.