þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómenn ánægðir í starfi

3. september 2015 kl. 11:14

Á sjó. Mynd: Einar Ásgeirsson

Tæplega 80 prósent sjómanna voru ánægðir með að hafa sjómennsku að atvinnu.

Um 90 prósent sjómanna eru ánægðir í starfi sínu en aðeins um 4 prósent eru óánægðir. Þetta kemur fram í nýbirtri könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu. Greint er frá þessu á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. 

Tilgangur könnunarinnar var að kanna líðan og öryggi sjómanna og að nýta niðurstöðurnar til úrbóta og hvata til aðgerða. Meðal annars var spurt um öryggi um borð, slys og áhættumat, ánægju í starfi, óhöpp og orsakir þeirra. Einnig vorum sjómenn spurðir um eigin heilsu og líðan um borð. 

Þá kom einnig fram að tæplega 80 prósent sjómanna voru ánægðir með að hafa sjómennsku að atvinnu.

Niðurstöðurnar sýna að miklar framfarir hafa orðið frá fyrri könnunum í öryggismálum sjómanna og hefur slysum og óhöppum fækkað jafnt og þétt. Því má þakka bættum skipakosti, aukinni menntun sjómanna og viðhorfsbreytingu til öryggismála um borð í skipunum. Einnig hefur aðbúnaður um borð sífellt orðið betri.

Sjá nánar á vef SFS.