laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómenn séu slysatryggðir á ferðum til og frá heimili að skipshlið

24. apríl 2009 kl. 09:32

Sjómenn eiga að njóta slysatryggingaverndar almannatrygginga á ferðum sínum á vegum útgerða frá heimilum sínum. Þetta er niðurstaða dóms í máli Hraðfrystistöðvar Þórshafnar gegn Tryggingastofnun ríkisins. Dómur var kveðinn upp þann 20. mars sl.

Í stuttu máli snérist málið um kröfu útgerðarinnar á hendur Tryggingastofnun ríkisins um endurgreiðslu slysalauna skipverja sem slasaðist í umferðarslysi í janúar 2007 á leið sinni frá Reykjavík til Akureyrar til vinnustaðar síns, skipsins Þorsteins-ÞH 360.

Tryggingastofnun hafði áður hafnað endurgreiðslu með þeim rökum að skipverji hafði ekki verið á beinni leið frá skráðu lögheimili sínu til vinnustaðar. Skipverjinn hafði skráð lögheimili á Þórshöfn, en hafði alltaf búið í Reykjavík.

Í dómnum sagði að ákvæði lögheimilislaga væru skýrð með þeim hætti að lögheimili manns og raunverulegur dvalarstaður færu að jafnaði saman. Vanræksla á tilkynningarskyldu samkvæmt lögum nr. 73/1952 breytti þar engu um. Umrætt slys væri því bótaskylt samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Ætti útgerðin því rétt á endurgreiðslu af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins.