mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjómönnum í Noregi fækkar um 4%

10. janúar 2014 kl. 14:00

Norskt uppsjávarskip.

Fiskiskipum fækkar í heild en smábátum fjölgar

Í upphafi árs 2013 voru 11.577 sjómenn skráðir í Noregi og fiskiskip töldust vera 6.133. Sjómönnum hefur fækkað um 4% miðað við janúar 2012, að því er fram kemur í frétt á vef norska síldarsölusamlagsins. 

Þeim sem hafa sjómennsku að aðalstarfi hefur fækkað úr 9.825 sjómönnum í upphafi árs 2012 niður í 9.521 sjómann í upphafi árs 2013. Fækkunin nemur 3%. Þeir sem hafa sjómennsku að aukastarfi voru 2.056 í upphafi árs 2013 og hefur fækkað um 8% frá sama tíma 2012. 

Meðalaldur sjómanna hefur lítið breyst milli áranna 2012 og 2013. Frá árinu 1990 til 2013 hefur meðalaldur sjómanna sem hafa sjómennsku að aðalstarfi hækkað úr 39,3 árum í 45,8 ár.

Í upphafi árs 2012 voru 6.211 fiskiskip í Noregi en þeim fækkaði í 6.133 skip í upphafi árs 2013. Bátum í stærðarflokknum 10 til 11 metrar fjölgaði en skipum og bátum í öllum öðrum stærðarflokkum fækkaði.