mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóræningjar sökktu 50 skipum

Guðsteinn Bjarnason
23. desember 2019 kl. 09:00

Santa Maria, skip Kristófers Kólumbusar, fórst árið 1492 út af strönd eyjunnar sem nú heitir Haítí. MYND/Wikipedia

Meðan Spánn var stórveldi sukku hundruð spænskra skipa í Karíbahafinu og víðar við austurströnd Ameríku. Spænskir fornleifafræðingar hafa unnið upp úr heimildum skrá yfir 681 skipsflak á hafsbotni á þessum slóðum.

Breska dagblaðið The Guardian skýrði frá því á vef sínum nýverið að spænskir vísindamenn séu að setja saman skrá yfir öll spænsk skipsflök sem vitað er um á hafsbotni við Ameríku.

Fornleifafræðingurinn Carlos León stýrir þessu verkefni og í vor birti hópurinn lista yfir 681 skipsflak út af ströndum Kúbu, Panama, Dóminíska lýðveldisins, Haítí, Bermúda, Bahamaeyja og Bandaríkjanna.

Elsta flakið á þessum lista er af skipi Kristófers Kólumbusar, Santa Maria, sem sökk á jóladag árið 1492 út af ströndum eyjunnar sem nú heitir Haítí. Kólumbus var þá nýkominn til Vesturheims og spænska konungsveldið strax tekið að leggja undir sig landsvæði þar.

Yngsta flakið er af spænska herskipinu Plutón, sem bandarískt skip sökkti árið 1898 út af ströndum Kúbu. Þá geisaði stríð milli Bandaríkjanna og Spánar, og spænska heimsveldið var tekið að riða til falls.

Fornleifafræðingurinn León hefur undanfarin fimm ár leitað heimilda í skjalasöfnum á Spáni, bæði í Sevilla og Madríd, ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum, þeim Beatriz Domingo sem einnig er fornleifafræðingur, og Genoveva Enriques, sem er sagnfræðingur.

The Guardian hefur eftir León að skráningin sé gerð í tvenns konar tilgangi.

„Annar er sá að útvega verkfæri sem nota má til þess að greina og vernda staði þar sem skipsflök er að finna, sérstaklega þar sem mikið er um sokkin skip.“

Hitt meginmarkmiðið var að endurheimta hluta sögunnar sem mikið til hefur gleymst.

„Gerðar hafa verið rannsóknir á frægustu skipunum, en þau eru gríðarmörg sem við vitum nákvæmlega ekkert um. Við vitum hvorki hvernig þau sukku né hversu djúpt.“

Rannsóknirnar hafa þó leitt í ljós að langflest skipanna, eða 91,2 prósent, fórust í veðurofsa, en 4,3 prósent strönduðu og 1,4 prósent sukku í hernaðarátökum við bresk, hollensk eða bandarísk skip. Einungis 0,8 prósent, eða rúmlega 50 skip, lentu á hafsbotni eftir að sjóræningjar réðust gegn þeim.