mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóræningjar farnir að skaða túnfiskiðnaðinn

17. október 2009 kl. 14:32

Árásir sómalskra sjóræningja á túnfiskskip í Indlandshafi eru farin að hafa áhrif á framboð á túnfiski til niðursuðu, að því er fram kemur í skýrslu INTERTUN, samtaka túnfiskframleiðenda.

Þar segir að helmingur túnfiskaflans í heiminum komi úr Indlandshafi og síendurteknar árásir sjóræningja á veiðiskipin síðustu árin séu farnar að skaða þessa atvinnugrein verulega. Jafnframt stefni þær lífsafkomu 2.000 spænskra sjómanna og 12.000 starfsmanna í túnfiskiðnaðinum í hættu.

Í spænska túnfiskflotanum í Indlandshafi eru 33 skip, veiðiskip og aðstoðarskip. Fram kemur að skipin geti ekki farið neitt annað til veiða því bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi séu strangar veiðitakmarkanir.

Sjóræningjar halda enn spænska túnfiskskipinu Alakrana, sem þeir tóku á dögunum um 365 mílum undan strönd Sómalíu. Sjóliðum á spænsku freigátunni Canarias tókst að handtaka tvo sjóræningjanna þegar þeir reyndu að komast frá borði spænska túnfiskskipsins, en ellefu ræningjar eru enn um borð og halda þeir 36 manna áhöfn veiðiskipsins í gíslingu. Þeir krefjast fjögurra milljóna dollara lausnargjalds, jafnvirði 500 milljóna íslenskra króna, að því er fram kemur á fréttavefnum fis.com.