mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjötta skilningarvitið fundið!

27. júlí 2011 kl. 14:20

Höfrungar skynja rafsvið í kringum hugsanlega bráð og væntalega hafa mennirnir samskonar hæfileika

Nýjar rannsóknir sýna að höfrungar eru ekki aðeins þeim eiginleikum búnir að nema endurkast hljóðbylgna heldur geta þeir einnig skynjað rafsvið umhverfis bráð sína. Líffræðingar hjá Danmarks Akvarium vilja ekki útiloka að mennirnir hafi sama hæfileika og að þar sé hugsanlega komin skýringin á sjötta skilningarvitinu, að því er fram kemur á vefnum fiskerforum.dk.

Hæfileikinn til að skynja rafsvið í kringum önnur dýr getur nýst höfrungum til að staðsetja bráð sína. Það voru vísindamenn við háskólann í Rostock í Þýskalandi sem gerðu þessa uppgötvun. Vísindamennirnir skoðuðu meðal annars hitamyndir af höfrungum sem sýndu öfluga lífeðlisfræðilega virkni í efri kjálka þegar þeir skynjuðu bráðina.

Það er ekki ný uppgötvun að dýr geti skynjað rafsvið í kringum dýr í nánd. Þetta er þekkt fyrirbæri há fiskum og vissum skriðdýrum. Hins vegar er þetta í fyrsta sinn sem slíkt er mælt hjá spendýrum.