miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sjóveikiþing haldið á Akureyri

6. júlí 2019 kl. 07:00

Hannes Petersen læknir við menningarhúsið Hof á Akureyri, þar sem hreyfiveikiráðstefnan hefst á sunnudag. MYND/Aðsend

Á nýju sjóveikisetri sem stofnað verður á Akureyri verður fullkominn tækjabúnaður til að gera rannsóknir á sjóveiki og hreyfiveiki almennt.

Nú stendur yfir á Akureyri fjögurra daga alþjóðleg ráðstefna um hreyfiveiki, en sjóveiki telst til hreyfiveiki ásamt bílveiki, flugveiki, geimveiki og fleiri veikindum sem herjar á fólk þegar umhverfið hreyfist óþægilega mikið.

Hannes Petersen háls-, nef- og eyrnalæknir stendur fyrir ráðstefnunni, en hann hefur um árabil stundað rannsóknir á hreyfiveiki, en hreyfiveiki er regnhlífarheiti sem nær yfir sjóveiki, bílveiki, flugveiki og önnur sambærileg veikindi er stafa af jafnvægistruflunum vegna hreyfingar.

Á ráðstefnunni verður meðal annars undirrituð viljayfirlýsing um stofnun sjóvekiseturs á Akureyri. Að setrinu munu standa þrír íslenskir háskólar og tveir evrópskir. Á setrinu verður fullkominn búnaður til slíkra rannsókna.

„Þetta er sýndarveruleikabúnaður og síðan stendur þú á jafnvægisplötu sem er með „gýróum“ eða tjökkum sem geta hreyft plötuna og líkt þannig eftir því til dæmis að þú værir að standa á öldu,“ segir Hannes.

„Möguleikarnir eru óendanlegir. Þetta eru tæki af bestu gerð, og þau nýtast okkur og þau myndu nýtast nemendum við háskóla í útlöndum eða hér á landi sem hafa áhuga á að skoða eitthvað sérstakt. Uppgötvanir þarna geta nýst í meðferð sjúklinga með svima og slík vandamál, það er alls konar afleiddur virðisauki af þessum rannsóknum.“

Hannes er líklega fremsti sérfræðingur Íslendinga á sviði sjóveiki og hefur nú fengið fjöldan allan af evrópskum fræðimönnum í fremstu röð til þátttöku í alþjóðlegri ráðstefnu um hreyfiveiki. Ráðstefnan verður haldin í menningahúsinu Hofi á Akureyri dagana 7. til 10. júlí.

Hannes greinir þar frá niðurstöðum nýjustu rannsókna sinna. Fyrir tuttugu árum gerði hann rannsókn á upplifun sjómanna á sjóveiki, og nú í vetur gerði hann svipaða rannsókn, tuttugu árum síðar, til samanburðar og ítarlegri greiningar.

„Niðurstöðurnar styrkja okkur í þeirri trú að sjómenn eru virkilega að upplifa sjóveiki. Þetta er vandamál meðal þeirra. Þetta eru heilsuhraustir einstaklingar upp til hópa og vinna lengi, eru trúir sinni vinnu, eru lengi á vinnustöðunum og það er ekki stærð og bygging skipa er lítið að hafa áhrif á þetta. Þó er er ákveðin tegund af sjósókn sem sker sig úr,“ segir Hannes en vill bíða ráðstefnunnar til að kynna nánar hvað í þessu felst.

Sýndarveruleiki
Á seinni árum hefur reyndar  komið í ljós að fólk getur fundið til hreyfiveiki þótt það sitji kyrrt í stólnum sínum með fast land undir fótum heima í stofu.

„Nú er nefnilega kominn til sögunnar þessi sýndarveruleiki þar sem fólk er með leikjagleraugu á hausnum og ferðast í rússibönum á fullri ferð eða með flugvélum í gegnum skóg, það eru bílar að keyra eða menn eru að skjóta niður flugvélar. Svo taka krakkarnir af sér þessi gleraugu því þau gátu ekki spilað lengur. Þeim var orðið óglatt og upplifðu þar sömu einkenni og sjómenn úti á sjó, nema hvað þarna sátu þau í skrifborðsstólnum sínum,“ segir Hannes Petersen læknir.

Hann segir þetta sýna greinilega fram á að ekki þurfi raunverulega hreyfingu líkamans til að verða sjóveikur. Sjónrænt áreiti dugi þar til eitt og sér.

Allir veikjast
Að sögn Hannesar verða allir sjómenn veikir fyrstu dagana á sjó. Þeir segi reyndar sjálfir margir hverjir að þeir verði ekki sjóveikir, en það segi þeir vegna þess að þeir líta ekki svo á að maður verði sjóveikur fyrr en maður þarf að æla.

„Þetta er einstaklingsbundið. Sumir eru sjóveikinæmir, aðrir eru sjóveikiónæmir,“ segir Hannes, og það skýrir það að sumir verða sjaldan svo veikir á sjó að þeir þurfi að kasta upp.

„En jafnvel þessir sjóveikiónæmu einstaklingar verða veikir ef áreitið verður nógu mikið. Þá kasta þeir upp fyrr eða síðar. En þótt þeir gubbi ekki þá eru sjómennirnir með líkamleg einkenni sjóveiki. Þeir verða þreyttari, þeim líður illa í brælunni. Þá eru þeir bara sjóveikir.“

Hannes segir að það taki alltaf þrjá til fjóra daga að sjóast, og það gildi jafnt hvort sem menn séu að fara á sjóinn í fyrsta sinn eða eftir að hafa verið nokkra daga í landi milli túra.

Þjálfun gegn sjóveiki?
Hugmyndin er að nýta fyrrnefndan búnað til að þjálfa sjómenn gegn sjóveiki áður en haldið er á sjóinn.

Þetta stendur til að prófa í sjóveikisetrinu á Akureyri, þegar starfsemi hefst þar. Þetta megi til dæmis gera í samstarfi við stærri útgerðir þar sem tvær áhafnir eru á skipum, fjórar vikur á sjó og fjórar vikur í landi til skiptis.

„Það er svo mikilvægt að ef að sjómaður er að fara út á sjó, og veit að hann er að fara eftir viku, að taka hann í æfingar, hálftíma á dag, fjóra daga eða fimm daga áður en hann fer, til að minnka sjóveikiupplifun.“

Ráðstefnan á Akureyri verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, þar sem athyglinni er öll á hreyfiveiki. Samhliða henni er haldin á Akureyri 15. ráðstefna Evrópsku jafnvægisvísindasamtakanna, og er von á virtum erlendum fyrirlesurum.

Fréttin birtist upphaflega í Fiskifréttum 4. júlí.