mánudagur, 13. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skaginn 3X skrifar undir stóra samninga

3. júní 2020 kl. 09:00

Valeriy Akbashev, Konstantin Korobkov, Pétur Pétursson og Vladimir Borodkin. Aðsend mynd

Sér um þróun og hönnun nútíma- og sjálfvirknivæðingar rússneskra og suðurkóreskra fyrirtækja

Skaginn 3X hefur skrifað undir stóra söluhönnunarsamninga við rússnesk og suðurkóresk fyrirtæki. Fyrirtækin hyggjast nútíma- og sjálfvirknivæða fiskvinnslu sína til að auka hagræðingu, gæði og afrakstur.

„Þó sjálfvirkar heildarlausnir hafi verið staðalbúnaður í greininni á ákveðnum svæðum í áratugi eru þau fyrst núna að verða nauðsynleg í mörgum vinnslustöðvum í Rússlandi og Asíu,“ segir í tilkynningu frá Skaganum 3X.

Í Rússlandi eru það sjávarútvegsfyrirtækin Magadanryba og Yuzhno-Kurilskiy Rybokombinat sem gerðu nýverið ráðgjafasamning við Skagann 3X um þróun hugvitsamlegra lausna í sjálfvirknivæðingu fiskvinnslu fyrirtækjanna.

„Góður árangur í nýlegum verkefnum okkar í landvinnslu fyrir rússnesku fiskvinnslufyrirtækin JSC Gidrostroy og V.I. Lenin hefur orðið til þess að við erum nú mikilvægur samstarfsaðili margra fyrirtækja bæði í Rússlandi og Asíu sem sækjast eftir að sjálfvirknivæða ferla og þróa nýjar og nútímalegar vinnslustöðvar,“ segir Arnar Friðrik Albertsson yfirmaður söluhönnunar Skagans 3X. „Sjálfvirkni, bætt vinnuvistfræði og skilvirkari vinnsla á stærri skala eru allt sérfræðisvið Skagans 3X og hafa verið um áratuga skeið.“

Spennandi verkefni

Í Suður-Kóreu hefur fyrirtækið Hyeseung Fisheries einnig gert samning við Skagann 3X um aðstoð við þróun nýrrar fiskvinnslu sem á að verða „háþróaðasta landvinnslan á þessu svæði,“ segir í tilkynningunni.

„Nýi samningurinn við Hyeseung Fisheries lofar góðu og verður spennandi verkefni fyrir sérfræðinga okkar í fiskvinnslu,“ segir Arnar. „Þetta er teymi sem hefur þróað og innleitt stórar og flóknar heildarlausnir og það verður ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í að hanna þessa tímamóta vinnslustöð.“

Fiskifréttir hafa á síðustu misserum greint frá umfangsmiklum hátæknibúnaði sem Skaginn 3X hefur sett upp í Rússlandi. Nema þeir samningar milljörðum króna.