þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skammarlega litlu fé er varið til haf- og fiskirannsókna

5. júní 2015 kl. 11:41

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur.

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur segir það mikið áhyggjuefni.

„Umfang fiskirannsókna hér við land hefur engan veginn verið í takt við vöxt þjóðarbúskaparins eða aflaverðmæta sem þessi auðlind gefur. Miðað við þá þýðingu sem fiskveiðar hafa fyrir íslenska þjóðarbúið þá er það skammarlegt hve litlu fjármagni er varið til rannsókna,“ segir Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur í viðtali í sjómannadagsblaði Fiskifrétta en hann hefur nýlega látið af störfum hjá Hafrannsóknastofnun sökum aldurs.  

Hann segir að gríðarlegar breytingar séu að verða á Íslandsmiðum og að það sé áhyggjuefni að við höfum ekki tækifæri til að fylgjast með þeim sem skyldi. Mikil hlýnun sjávar hafi nú þegar valdið miklum breytingum á útbreiðslu fiskstofna og talið er að súrnun hafsins geti einnig haft miklar breytingar í för með sér, sér í lagi á frumframleiðsluna sem er undirstaða alls lífs í hafinu. 

"Við vitum ekki hvaða áhrif þessar breytingar munu hafa á fiskistofnana og við erum ekki að gera nóg til þess að reyna að komast að því. Árið 2003 hættum við seiðarannsóknunum sem var að mínu mati og margra annarra mikill afleikur. Einmitt þá voru að gerast ótrúlegar breytingar í tengslum við nýliðun í þorski. Við fengum stóra seiðaárganga í þorski ár eftir ár en þeir skiluðu sér ekki inn sem veiðiárgangar. Við vitum ekki hvers vegna og gerðum svo sem lítið til þess að leita skýringanna. Spágildið milli seiðafjölda og árganga seinna meir brenglaðist mjög á þessum tíma og þá voru þessar rannsóknir einfaldlega lagðar af í stað þess að gera tilraun til að komast að því hvað væri að gerast. Peningaskortur var hluti af þeirri ákvörðun,“ segir Sveinn. 

Hann bendir jafnframt á að Hafrannsóknastofnun hafi ekkert fjármagn haft til þess að fylgjast með breyttri hegðan loðnunnar síðastliðinn vetur. 

Sjá nánar ítarlegt viðtal við Svein í sjómannadagsblaði Fiskifrétta um starfsferil hans og viðhorf.