sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skarkoli merktur á ný fyrir norðan

26. júní 2009 kl. 15:00

Um 2.900 skarkolar voru nýlega merktir í Eyjafirði og Skjálfandaflóa og er þetta í fyrsta sinn frá því í upphafi áttunda áratugarins að kolinn er merktur fyrir norðan, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Hlynur Ármannsson, útbússtjóri Hafrannsóknastofnunarinnar á Akureyri og leiðangursstjóri, sagði í samtali við Fiskifréttir að tilgangur merkingarinnar væri að fá betri hugmynd um útbreiðslu skarkolans í Eyjafirði og Skjálfanda, hvort hann dreifði sér víða eða héldi sig hugsanlega nærri merkingarstöðunum meginhluta ársins. Þá hefði gögnum verið safnað til að kanna helstu þætti í líffræði skarkolans, s.s. hrygningarástand og aldursdreifingu.

Fremur lítið er vitað um hrygningarslóðir skarkola utan aðalhrygningarstöðvanna fyrir sunnan og vestan land. ,,Við fundum hrygnandi skarkola bæði í Eyjafirði og Skjálfanda, þannig að einhver hluti stofnsins hrygnir þar að minnsta kosti,“ sagði Hlynur.

Auk hefðbundinna merkja voru 34 skarkolar merktir með rafeindamerkjum sem safna upplýsingum um hita og dýpi. Aðeins einu sinni áður hefur skarkoli verið merktur með rafeindamerkjum hér við land en það var á Breiðafirði og úti fyrir Vestfjörðum á árunum 1997 og 1998. 

Nú þegar hafa nokkrir skarkolar sem merktir voru á ystu merkingarstöðinni í Eyjafirði endurheimst. Einni og hálfri viku eftir merkingar í Skjálfandaflóa veiddust merktir skarkolar í Axarfirði og eru heimkynni þeirra því greinilega ekki bundin við flóann.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.