mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skerpt á skilgreiningu tengdra aðila

10. janúar 2020 kl. 13:56

Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni leggur til að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í morgun á ríkisstjórnarfundi tillögur verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu er vitnað í Kristján Þór, sem segir þessar tillögur eigi að skýra það hvað felst í hugtökunum „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ og stuðla jafnframt að skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild.

„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu má rekja tilraunir starfsmanna Fiskistofu aftur um rúman áratug til að skilgreina hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ í lögum um stjórn fiskveiða. Það sjá allir að slík staða er óviðunandi,“ segir Kristján Þór.

Skýrslu verkefnastjórnarinnar má nálgast hér en megintillögurnar eru eftirfarandi:

1. Skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra

2. Ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða

3. Skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum

4. Aðilar sem ráða meira en 6% af aflahlutdeild eða 2,5% af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir.

5. Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.