miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skil afladagbóka nú alfarið rafræn

4. september 2020 kl. 15:00

Margir smábátar hafa skilað afladagbókum á pappír. Mynd/Fiskistofa

Með breytingum sem tóku gildi um mánaðarmótin verða allar skráningar afladagbóka rafrænar en reglur um það hvað skal skrá eru óbreyttar. Pappírsafladagbók hefur því alfarið verið tekin úr notkun og ber öllum fiskiskipum að skila dagbókarskráningu inn áður en löndun hefst eftir hverja veiðiferð.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.

Skil á aflaupplýsingum eru möguleg í gegnum rafræna afladagbók eða í gegnum smáforrit sem Fiskistofa hefur þróað.

Einfaldar skil

Með því að taka upp rafræna aflaskráningu er stefnt að því að nýta tækni til að einfalda skil á upplýsingum en jafnframt að auka skilvirkni í samskiptum einstaklinga og fyrirtækja við stjórnvöld. Hér er um mikið gæfuspor að ræða fyrir alla aðila,“ var haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni í frétt ráðuneytisins fyrr á þessu ári.

Útgerðir bera ábyrgð á skilum og skal aflaskráningu og skilum með rafrænum hætti vera lokið áður en lagst er að bryggju að lokinni veiðiferð, eins og fyrr segir. Þetta gildir fyrir rafræna afladagbók en áður höfðu menn allt að sex vikur til að skila henni eftir í land var komið.

Einfalt í notkun

Stærri skip skila rafrænum afladagbókum til Fiskistofu en flestallir smábátar hafa skilað afladagbókum á pappír. Afladagbókin virkar þannig að eingöngu þarf að vera í síma- eða netsambandi  við upphaf og lok veiðiferðar.  Afladagbókin skráir sjálfkrafa staðsetningu bátsins við veiðar og skipstjórnarmenn skrá afla, ástand hans og meðafla með einföldum hætti í forritinu, segir í skýringum á vef Fiskistofu.