þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skinney-Þinganes reisir íbúðir fyrir starfsmenn

Guðjón Guðmundsson
24. febrúar 2019 kl. 12:00

Styrgerður Hanna Jóhannsdóttir, stjórnarformaður byggingarverktakans Mikaels ehf. afhenti Guðrúnu Ingólfsdóttur, fjármálastjóra hjá Skinney - Þinganesi hf. sex fullbúnar íbúðir að Bugðuleiru 1 þann 14. desember sl. Aðsend mynd

Íbúðirnar leigðar út og seldar starfsfólki á kostnaðarverði

Skinney-Þinganes á Hornafirði brást við húsnæðisvandræðum starfsmanna sinna á staðnum með því að byggja fjölbýlishús og raðhús og slá þannig á þennan vanda. Fyrirtækið á sjálft raðhúsið og leigir út íbúðir til starfsmanna sinna. Allar íbúðirnar í fjölbýlishúsinu hafa verið seldar til starfsmanna.

Starfsmenn Skinney-Þinganes eru um það bil 300 talsins. Guðrún Ingólfsdóttir, fjármálastjóri fyrirtækisins, segir erfitt að nefna fjölda þeirra sem höfðu verið í húsnæðisvanda. Enginn var á götunni en sumir deildu íbúðum með öðrum.

„Við fundum að það var þörf á liltum íbúðum.  Starsfmenn okkar voru oftar en ekki í vandræðum með að finna sér íbúðir og þurftu að deila einni íbúð, fleiri en ein fjölskylda. Á sama tíma leitaði sveitarfélagið til okkar.  Það hafði hug á að fara að byggja blokk fyrir sig, og vildi að við kæmum að byggingu annarrar. Við höfðum fundið þessa þörf meðal okkar starfsfólks og því var ákveðið að fara í verkefnið,“ segir Guðrún.

17 litlar og meðalstórar íbúðir

Staðan á húsnæðismarkaðnum á Hornafirði hefur ekki verið með besta móti frekar en víða annars staðar. Vantað hefur litlar og millistórar íbúðir. Þá hefur talsverður hluti íbúðahúsnæðis undanfarin ár farið í útleigu til ferðamanna eða komist í eigu hótela og veitingastaða sem þurfa íbúðir fyrir sitt starfsfólk.

„Ég veit hins vegar ekki alveg hver staðan er í dag, en tilfinningin er sú að ástandið hafi lagast.  Með þessum byggingum okkar og bæjarins komu 17 litlar og meðalstórar íbúðir á markaðinn. Heimamenn hafa líka verið duglegir að byggja undanfarna mánuði svo pressan hefur minnkað. Við finnum hins vegar að þörfin er ekki horfin, en klárlega minnkað,“ segir Guðrún.

Selt á kostnaðarverði

Stjórn Skinney-Þinganes tók ákvörðun síðla árs 2017 um að fara út í þessar framkvæmdir. Annars vegar var um að ræða sex íbúða raðhús í Álaleiru sem fyrirtækið á í dag og leigir til starfsmanna. Íbúðirnar eru 37 fermetrar á stærð. Hins vegar var reist sex íbúða fjölbýlishús í Bugðuleiru sem Skinney-Þinganes fjármagnaði og seldi síðan til starfsmanna. Íbúðirnar eru misstórar og hafa allar verið seldar. Umsóknir um leigu og kaup á íbúðum komu úr nær öllum deildum fyrirtækisins. Það var því ekki að sjá að þörfin væri mest meðal einhvers tiltekins hóps.  Guðrún segir að fermetrinn í fjölbýlishúsinu hafi verið seldur á kostnaðarverði svo að þar komi Skinney-Þinganes út á núlli.

Leigu stillt í hóf

„Á Álaleirunni þar sem við leigjum út smáíbúðir er leigunni stillt í hóf, enda gert til að leysa vanda starfsmanna sem skilar sér þá í minni starfsmannaveltu.  Leigutekjurnar koma þó til með að borga til baka fjárfestinguna en á löngum tíma. Reynslan af þessu hingað til hefur verið ágæt. Það hefur verið meiri eftirspurn en framboð fram að þessu  svo það er nokkuð ljóst að menn mátu það rétt að þörf væri á auknu framboði íbúða,“ segir Guðrún. Hún segir ekki hafa verið tekna ákvörðun um að fyrirtækið fari út í frekari framkvæmdir á þessu sviði.